Japanski bílaframleiðandinn Toyota seldi 7,41 nýja bíla undir merkjum fyrirtækisins á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er nær engin breyting á milli ára eða sem nemur 0,1%. Engu að síður náði fyrirtækið að tryggja sér toppsætið yfir þau fyrirtæki sem hafa selt flesta bíla á tímabilinu. Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors er í öðru sæti en fyrirtækið seldi 7,25 milljónir bíla á heimsvísu frá áramótum og til loka september. Það er 4,6% aukning á milli ára.

Samkvæmt upplýsingum AP-fréttastofunnar er þýski bílarisinn Volkswagen í þriðja sæti á lista yfir þau fyrirtæki sem hafa selt flesta bíla frá áramótum. Fyrirtækið seldi rétt rúmlega 7 milljónir bíla á fyrstu níu mánuðum ársins. Það er tæplega 5% aukning frá sama tíma í fyrra.

General Motors trónaði á toppnum um áratugaskeið en tapaði toppsætinu sem helsti bílaframlleiðandi í heimi til Toyota árið 2008. Toyota fór niður um sæti í kjölfar náttúruhamfara í Japan árið 2011 en náði því aftur í fyrra.