Mikil umframeftirspurn var eftir 100 milljón evra (8,7 milljarða króna) sambankaláni Icebank og segja markaðsaðilar í London að bankinn íhugi nú að stækka lánið í 217,5 milljónir evra, eða sem samsvarar rétt rúmlega 19 milljörðum króna. Lánið er stærsta sambankalán í sögu Icebank.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Icebank, segir bankann njóta velvildar og álits erlendis og að það hafi stuðlað að umframáskriftinni. Markaðsaðilar hafa þó einnig bent á að kjörin hafi laðað að fjárfesta en bankinn þar nú að greiða töluvert meira fyrir fjármagnið en fyrir umrót á íslenskum fjármálamarkaði í kjölfar ákvörðunar Fitch Ratings að breyta lánhæfishorfum íslenska ríkisins.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru kjörin 46 punktar yfir EURIBOR, sem eru millibankavextir í Evrópu, en síðast þegar bankinn sótti fjármagn á sambankalánamarkað voru kjörin 35 punktar. "Kjörin eru lakari en áður en havaríið byrjaði í febrúar 2006. Við erum sátt við kjörin miðað við aðstæður, en þau eru ekki eins góð og í gömlu góðu dagana," segir Finnur.

Finnur segir að fjármagnið verði nýtt til þess að endurgreiða eldra sambankalán og styðja við framtíðarvöxt bankans. "Bankinn er að stækka en við höfum ekki eyrnamerkt fjármagnið," segir Finnur. Hann segir mögulegt að nýta lánið til kaupa en segir of snemmt sé að segja til um slíkt.

Hagnaður Icebank eftir skatta rúmlega tvöfaldaðist árið 2006 í 5,66 milljarða króna og var árið það besta í sögu Icebank. Finnur segir bankann nú mun sterkari fjárhaglega en áður og betur í stakk búinn til að sækja fram og auka umsvifin veulega, hér á landi og sérstaklega erlendis. Hann segir að búast megi við góðu uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung á þessu ári.

Stefnt er að skrá Icebank, áður Sparisjóðabanka Íslands, í Kauphöllina og verður aukin áhersla lögð á fjárfestingabankastarfsemi. Finnur sagði það raunhæft að skrá bankann á næsta ári en tók fram að formleg undirbúningsvinna væri ekki hafin.

Þýski bankinn BayernLB, belgíski bankinn Fortis Bank, HSH Nordbank og austurríski bankinn RZB höfðu umsjón með sölu sambankalánsins til annarra fjárfsesta.