Útlit er fyrir að uppfærðar tillögur kröfuhafa Glitnis um það hvernig slitabúið geti uppfyllt stöðugleikaskilyrði yfirvalda feli í sér mun meira afsal verðmæta til ríkisins heldur en fyrri tillögur. Sökum margra óvissuþátta er ómögulegt að fullyrða um það hversu miklu munar, en ekki er óvarlegt að áætla að nýju tillögurnar feli í sér 50-100 milljörðum króna hærra stöðugleikaframlag en áður hafði verið lagt til.

Nýju tillögurnar, sem kynntar voru á vef fjármálaráðuneytisins aðfaranótt þriðjudags, fela í sér verulega breytingu á því hvernig kröfuhafar Glitnis sjá fyrir sér að uppfylla megi stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Stærsta breytingin er sú að lagt er til að Íslandsbanka verði afsalað til íslenskra ríkisins. Helsti óvissuþátturinn í því hversu stórt hið nýja stöðugleikaframlag Glitnis er felst því í óvissu varðandi verðmæti Íslandsbanka.

Vildu selja bankann til útlanda

Í fyrri tillögum kröfuhafa Glitnis um það hvernig uppfylla megi stöðugleikaskilyrði stjórnvalda, sem kynntar voru samhliða skilyrðunum sjálfum í júní síðastliðnum, var lagt til að slitabú Glitnis myndi beita sér fyrir því að Íslandsbanki yrði seldur fyrir lok árs 2016. Stöðugleikaframlag Glitnis til ríkisins yrði síðan mismunandi eftir því hvort Íslandsbanki yrði seldur íslenskum eða erlendum aðilum.

Yrði Íslandsbanki seldur Íslendingum fyrir fjárhæð sem nemur bókfærðu virði eigin fjár bankans myndi íslenska ríkið, samkvæmt fyrri tillögum kröfuhafanna, fá í sinn hlut fjármuni að verðmæti um 265 milljarða króna miðað við eigið fé bankans í lok síðasta ársfjórð- ungs. Í kjölfar þess að tillögur kröfuhafa föllnu bankanna voru kynntar kom hins vegar í ljós að kröfuhafar Glitnis höfðu frekar hug á því að selja bankann til erlendra fjárfesta. Hefði bankinn verið seldur erlendum aðilum fyrir sömu fjárhæð hefði ríkið fengið um 59 milljörðum krónum minna, eða um 206 milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .