Myndefni Björns Steinbekk sem hann tók upp af af gosstöðvunum í Geldingadal með dróna hefur náð mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum og fjölmiðlar víða um heim notað myndefni hans .

Björn segir í samtali við Viðskiptablaðið að mikið sé að gera í tengslum við myndefnið, hann hafi til að mynda verið í þónokkrum viðtölum nú í morgun og í beinni útsendingu í fréttum í Bretlandi í gær.

„Ég er ekki með nákvæmar tölur um áhorf, en mér er sagt að það séu fleiri tugir milljóna manns búnir að sjá myndbandið. Mér skilst að þetta hafi verið sýnt í einhvers konar flutningi á um 80 til 90 sjónvarpsstöðvum um allan heim í gær," segir Björn og bætir við að hann viti til þess að fleiri stöðvar muni sýna myndefni frá honum í dag. Þá segir Björn að mjög stór bresk fjölmiðlasamsteypa hafi haft samband við hann í dag og óskað eftir sýningarrétti á myndefninu á heimsvísu.

Björn hefur fengið fyrirtæki til þess að sjá um samskipti við fjölmiðla á notkun á myndefninu og sækja rétthafagreiðslur.

„Ég tók strax þá afstöðu þegar þetta fór af stað og ég sá hvað ég var með í höndunum, að fá fyrirtæki til að sjá um öll samskipti við fjölmiðla um notkun á myndbandinu. Þeir fá efnið og dreifa því sjálfir og sækja síðan rétthafagreiðslur til þeirra sem hafa notað myndefnið. Þetta fyrirkomulag er mjög þægilegt, bæði fyrir mig og þá fjölmiðla sem vilja nýta efnið. Ég held að allir þeir sem eru að búa til eitthvað skapandi upplifi miklar breytingar með tilkomu netsins og að mínu mati er eðlilegt að allir fái sitt og þetta fyrirkomulag er þægileg leið til þess."