Flutningsfyrirtækið TVG-Zimsen hefur tekið yfir starfsemi flutningsmiðstöðvarinnar Vectura. Þórður Björn Pálsson, stofnandi Vectura, hefur störf hjá TVG-Zimsen.

Í tilkynningu um yfirtökuna segir að TVG-Zimsen hafi sett sér háleit markmið um að þjónusta fyrirtæki á sviði kvikmyndagerðar, aulgýsinga og tónleika við flutninga og tengda þjónustu. Þórður Páll mun byggja upp sérhæfða deild á þessu sviði. Hann hefur 15 ára reynslu í að þjónusta þennan geira, sem hefur farið vaxandi hérlendis.

,,Vectura hefur haft afar sterka stöðu í allri sérhæfingu er snýr að kvikmynda-, auglýsinga- og tónleikageiranum. Það er mikil gróska í kvikmyndagerð á Íslandi og erlend kvikmyndafyrirtæki hafa sótt í auknum mæli hingað til lands. Það má fastlega búast við auknum verkefnum, stórum og smáum í þessum geira á næstu misserum. Vinsældir Íslands hafa aukist ekki síst vegna hinnar stórbrotnu og sérstöku náttúru sem og gengisþróunar sem er hagstæð fyrir erlenda aðila. Einnig bjóða íslensk stjórnvöld upp á hagstætt skattaumhverfi t.d. endurgreiðslu hluta framleiðslukostnaðar hér á landi sem kemur sér vel fyrir erlend fyrirtæki,“ segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, í tilkynningu.