Nýsköpunarfyrirtækinu Uber hefur verið gert að stöðva starfsemi sína á Spáni eftir að dómari þar í landi komst að þeirri niðustöðu að hún fæli í sér ósanngjarna samkeppni. BBC News greinir frá þessu.

Uber er snjallsímaforrit sem býður upp á leigubílaþjónustu. Bílaeigendur geta skráð sig sem bílstjóra hjá fyrirtækinu, og setji snjallsímaeigendur upp Uber-appið geta þeir fundið næsta bílstjóra og sýnir appið hversu langt er í hann. Greiðsla fer svo fram í gegnum appið.

Í dómsniðurstöðunni segir að bílstjórar Uber hafi ekki tilskilin leyfi frá spænskum stjórnvöldum til þess að starfrækja leigubílaþjónustu og þess vegna feli starfsemin í sér ósanngjarna samkeppni við hefðbunda leigubílstjóra.