Stærsta fjármálafyrirtæki Sviss, fjárfestingabankinn UBS, skilaði tapi upp á 358 milljónir svissneskra franka á öðrum fjórðungi ársins. Tap fyrir skatta nam 4,1 milljörðum. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Því hefur bankinn skilað tapi fjóra fjórðunga í röð, en UBS er meðal þeirra banka sem hafa afskrifað einna mest vegna ótryggra húsnæðislána í Bandaríkjunum.

Á sama tíma í fyrra hagnaðist UBS um tæpa 5,6 milljarða svissneskra franka. Afkoma bankans nú var undir væntingum greiningaraðila, en meðalspá sem Bloomberg tók saman gerði ráð fyrir 281 milljónar tapi.

Alls starfa um 82.000 manns hjá UBS, en bankinn hefur tilkynnt um að allt að 5.500 starfsmönnum verði sagt upp á næstunni í hagræðingarskyni.