Seðlabanki Úkraínu hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans stórlega eða úr 19,5% í 30%. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Aðgerðunum er ætlað að koma stöðugleika á efnahagslíf landsins og munu þær taka gildi á morgun. Gjaldmiðill landsins hefur lækkað mikið í verði að undanförnu auk þess sem stríðsástand í landinu hefur fælt fjárfesta í burtu.

Úkraínska þingið samþykkti á mánudag skilyrði fyrir 17,5 milljarða lánsfjármögnun frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sjóðurinn á hins vegar eftir að taka ákvörðun um lánveitinguna, en ráðgert er að hann komist að niðurstöðu 11. mars næstkomandi.