Félagið Bílaleiga Flugleiða ehf., sem á og rekur Hertz bílaleiguna hér á landi, hagnaðist um 367 milljónir króna á síðasta ári. Var um að ræða mikinn viðsnúning frá fyrra ári er 314 milljóna króna tap varð af rekstri félagsins.

Rekstrartekjur námu rétt rúmlega 3 milljörðum króna í fyrra og jukust um tæpan milljarð á milli ára. Rekstrargjöld námu rúmlega 2,4 milljörðum króna, samanborið við 2,3 milljarða árið áður. Eignir námu 6,6 milljörðum króna í lok síðasta árs og jukust um 1,9 milljarða milli ára. Þar af var bifreiðafloti bílaleigunnar metinn á tæplega 4 milljarða í bókum hennar en árið áður var flotinn metinn á 3,3 milljarða.

Þá jókst verðmæti eignarhlutar í hlutdeildarfélögum umtalsvert milli ára, eða úr 65 milljónum króna í 591 milljón króna. Munaði þar mest um hækkun á bókfærðu verði á Pallaleigunni Stoð, sem bílaleigan á 100% hlut í. Í ársreikningi 2020 var eignarhlutur í Pallaleigunni Stoð metinn á 2,4 milljónir króna en í reikningi ársins er Stoð metið á 528 milljónir króna. Í ársreikningi Stoðar fyrir síðasta ár má sjá að þessi virðisaukning kemur fyrst og fremst til vegna þess að fasteignasafn pallaleigunnar var endurmetið á árinu 2021 og hækkaði virði þess verulega við það.

Skuldir námu 4,7 milljörðum króna í lok síðasta árs, samanborið við 3,8 milljarða á sama tíma ári fyrr. Þar af námu skuldir við lánastofnanir 3 milljörðum en námu 2,5 milljörðum árið áður. Eigið fé nam tæplega 1,9 milljörðum króna á lokadegi síðasta árs en á sama tíma ári áður var það rúmlega milljarði lægra. Handbært fé í árslok nam rúmlega 1 milljarði en í ársbyrjun nam það 580 milljónum króna.

Nánar er fjallað um Hertz í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.