Sigríður Hrólfsdóttir, er viðskiptafræðingur og MBA. Hún hefur setið í stjórn Landsbankans í tæp þrjú ár. Áður sat hún í stjórn Valitors.

Hvað finnst þér um lagsetninguna sem tekur gildi á næsta ári?

„Fyrst þegar ég heyrði af henni var ég ekkert sérlega hlynnt þessu. Mér fannst ekki þurfa að fara þessa leið. Síðan held ég að þetta virki ágætlega. Sérstaklega á þetta vel við allra stærstu fyrirtækin. Það er kostur að hafa fjölbreyttan hóp stjórnarmanna. Ekki eingöngu af sitthvoru kyni heldur skiptir reynsla, aldur og menntun líka máli. Lagasetningin getur hjálpað til hvað þetta varðar en þess væri óskandi að þetta gerðist án lagasetningar. Það myndi hins vegar eflaust taka lengri tíma. Sú reynsla sem ég hef er að starfsreynsla, menntun eða það sem þú hefur gengið í gegnum í lífinu skiptir alveg jafn miklu máli og hvort þú ert karl eða kona.“

Hvernig finnst þér umræðan vera í kringum konur í stjórnir?

„Mér finnst hún bæði neikvæð og jákvæð. Umræðan er miklu opnari og jákvæðari en verið hefur. Það eru auðvitað ákveðnir aðilar sem finnst það vesen að þurfa að leita að konum í stjórnir fyrirtækja. Maður getur í sumum tilfellum haft skilning á því. Almennt finnst mér umræðan og viðhorf frekar jákvæð.“

Rætt er við Sigríði ásamt fleiri konum í stjórnum fyrirtækja um málið í Áramótum, áramótatímariti Viðskiptablaðsins, sem kom út á milli jóla og nýárs.