Í áramótablaði Viðskiptablaðsins er spjallað við nokkra forystumenn í mismunandi greinum atvinnulífsins þar sem þeir eru spurðir hvernig þeim fannst árið sem er að líða og hvaða væntingar þeir bera til ársins 2015. Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir frumkvöðlastarf og ferðaþjónustu standa upp úr á árinu.

Hvernig var árið 2014 heilt yfir?

Árið einkenndist fyrst og fremst af togstreitu og átökum. Það er óvenjulegt að á sama tíma og helstu hagvísar hafa verið að þróast til betri vegar hafa átök í stjórnmálum og á vinnumarkaði sjaldan verið harðvítugri. Það er vonandi að stjórnvöld, stjórnarandstaða og aðilar vinnumarkaðarins nái að færa umræðuna í uppbyggilegri farveg á komandi misserum.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?

Margt hefur gengið vel, en líklega standa frumkvöðlastarf og ferðaþjónustan upp úr. Það er gaman að sjá hversu mörgum frumkvöðlum hefur tekist að skapa alþjóðleg verðmæti úr hugmyndum sínum þrátt fyrir gjaldeyrishöftin. Það er þó enginn vafi í mínum huga að vöxtur margra þessara fyrirtækja hefði orðið meiri í samkeppnishæfara umhverfi. Ferðaþjónustan hefur síðan haldið áfram hlutverki sínu sem kreppumeðal með frekari fjölgun starfa og gjaldeyrissköpun. Hlutfallsleg aukning ferðamanna yfir vetrarmánuðina er sérstakt fagnaðarefni.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?

Að samfélagið leggi meiri áherslu á tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar og samkeppnishæfni íslensks hagkerfis. Of miklum tíma og orku er varið í deilur um hvernig eigi að ráðstafa verðmætum og viðhorf til breytinga eru of neikvæð. Hvort tveggja stendur bættum lífskjörum fyrir þrifum. Það er til mikils að vinna ef rétt er haldið á spöðunum.

Hver eru mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar á næsta ári?

Afnám gjaldeyrishafta og aukinn stöðugleiki á vinnumarkaði. Ef ekki tekst vel til í þessum tveimur verkefnum óttast ég að ársins 2014 verði minnst sem lognsins á undan storminum.

Spjallað er við fleiri forystumenn í íslensku atvinnulífi í áramótablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .