Uppgjör Actavis Group fyrir annan fjórðung rímar að mestu við væntingar greiningardeildar Kaupþings banka sem telur það á heildina litið mjög gott.

?Hagnaður félagsins á fjórðungnum nam 30,0 milljónum evra (2,72 milljarðar króna), í samræmi við spá okkar um 30,3 milljón evra hagnað (2,75)," segir greiningardeildin.

Tekjur fyrirtækisins námu um 364 milljónum evra (33 milljarðar króna) en greiningardeildin spáði að þær námu 351 milljón evra (31,9 milljarðar króna), frávikið er 3,6%.

?Frávikið skýrist helst af því að vöxtur í Norður-Ameríku á fjórðungnum var yfir okkar væntingum. Undirliggjandi vöxtur í Norður-Ameríku nam 20,3% á fjórðungnum og 17,1% á fyrri helmingi ársins. Innkoma rúmenska lyfjafyrirtækisins Sindan hafði einnig meiri áhrif en við höfðum gert ráð fyrir en velta félagsins á fjórðungnum nam 23,6 milljónum evra.," segir greiningardeildin.

Hún segir að Actavis standi í umtalsverðum hagræðingaraðgerðum um þessar mundir m.a. í tengslum við nýlegar yfirtökur.

?Stefnt er að lokun verksmiðju félagsins í Baltimore á seinnihluta ársins 2008 og verður framleiðslan flutt í verksmiðju félagsins í Lincolnton. Talið er að það geti skilað sparnaði uppá um 14 milljónir evra árlega frá og með árinu 2009. Þá voru gerðir starfslokasamningar við 210 starfsmenn í Serbíu í tengslum við samþættingu rekstrarins þar í landi sem höfðu í för með sér 1,5 milljón evra gjaldfærslu, en gert er ráð fyrir því að það skili um 3 milljón evra hagræðingu á ári frá og með 2007," segir greiningardeildin.