Hagnaður Straums-Burðaráss fjárfestingabanka nam 1,5 milljöðrum króna á þriðja fjórðungi sem var umtalsvert undir spá okkar um 5,3 milljarða króna hagnað, segir greiningardeild Glitnis.

?Grunntekjuþættir námu þremur milljörðum króna (spá 2,5 milljarðar króna) en spáskekkjan skýrist einkum af því að þóknunartekjur voru umtalsvert hærri en spáð.

Gengismunur var langt undir væntingum, var neikvæður um 179 milljónir króna en spá okkar hljóðaði upp á 5,4 milljarða hagnað. Spáskekkjan skýrist bæði af því að hagnaður af markaðsverðbréfum var mun minni en spáð auk þess sem hreinn gjaldeyrismunur var mun neikvæðari en við væntum," segir greiningardeildin.

?Forstjóri bankans sagði á afkomukynningu að bankinn hefði trú á því að ójöfnuðurinn í hagkerfinu myndi leiða til lækkunar á gengi krónunnar en bankinn er með um 36 milljarða króna jákvæða stöðu í gjaldeyri. Kostnaðarliðir námu alls 881 milljónum króna og voru undir spá (1.321 milljónir króna)," segir greiningardeildin.

Þróun efnahagsliða

Heildareignir bankans drógust örlítið saman á fjórðungnum sem má aðrekja til gengisbreytinga.

?Á afkomukynningarfundi kom fram að útlán hefðu aukist um 5% mælt á föstu gengi en með áhrifum af krónunni drógust þau saman um 3%. Útlán og ábyrgðir til tengdra aðila nema nú um 53,5 milljarða króna eða sem nemur 40% af lánum og kröfum bankans.

Fram kemur í skýringum að ástæðu aukningarinnar sem orðið hefur á þessum lið á árinu megi að mestum hluta rekja til breytinga í eignarhaldi bankans og þá hafi hluti viðskiptavina bankans flokkast sem tengdir aðilar. Eigið fé dróst saman á fjórðungnum vegna kaupa á eigin bréfum og nam 125,8 milljörðum króna í lok fjórðungsins," segir greiningardeildin.