Raunverð Bitcoin er það sama í dag og fyrir fimm árum síðan og svipaða sögu er að segja af mörgum fleiri rafmyntum. Á sama tíma hafa rafmyntir verið innlimaðar að verulegu leyti inn í hið hefðbundna fjármálakerfi.

Jón Daníelsson hagfræðiprófessor og forstöðumaður rannsóknarseturs kerfisáhættu í Bretlandi segir þetta til marks um að tímabil hnignunar rafmynta sé nú að ganga í garð.

Sem dæmi um innlimun þeirra vinni allar rafmyntakauphallir sem vilja láta taka sig alvarlega með eftirlitsaðilum [innskot blaðamanns: sér í lagi eftir dramatískt fall FTX] og fylgi reglum kerfisins sem þær voru upphaflega hannaðar til að standa utan og – í huga þeirra ötulustu talsmanna – taka við af.

„Allt þetta batterí sem hefðbundnar fjármálastofnanir þurfa að vera með fyrir sína fjármálaþjónustu á við um rafmyntakauphallirnar,“ segir Jón og nefnir framfylgd viðskiptabanna gegn Rússlandi vegna Úkraínustríðsins sem dæmi.

„Og þá er það spurningin: Ef að rafmyntir eru að verða hluti af kerfinu, hvað verður þá um pólitíkina; hugmyndafræðilega grunninn sem hefur verið undirstaða alls málflutnings hefðbundinna rafmyntarsinna?“

Nánar er rætt við Jón í Viðskiptablaði vikunnar sem kom út í morgun.