Ástandið á Spáni heldur áfram að versna og eru tvö héruð nánast komin í uppreisn gegn ríkisstjórn landsins, sem hefur gert þá kröfu að héraðsstjórnirnar skeri enn frekar niður í útgjöldum sínum. Katalónía, ríkasta hérað Spánar með hagkerfi á stærð við Portúgal, sendi ekki fulltrúa á fund héraðsstjórna með fjármálaráðherranum Cristobal Montoro. Fulltrúi Andalúsíu, fjölmennasta héraðsins, yfirgaf fundinn fljótlega eftir að hann hófst til að mótmæla niðurskurðarkröfum stjórnarinnar.

Kröfur ríkisstjórnarinnar fara sérstaklega í taugarnar á héraðsstjórnunum vegna þess að á fyrsta helmingi þessa árs fór halli á ríkissjóði Spánar í 4% af vergri landsframleiðslu, en hallinn var 3,4% á fyrstu fimm mánuðunum. Það er kaldhæðnislegt að hallinn kemur m.a. til vegna þess að ríkissjóðurinn veitti illa stöddum héraðsstjórnum og öðrum opinberum aðilum fjárhagsaðstoð í júní. Héraðsstjórn Valensíuhéraðs var fyrst til að óska eftir ríkissaðstoð en útlit er fyrir að Katalónía og Marsía muni einnig leita eftir aðstoð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.