Það er öllu bjartara yfir markaðinum nú í morgun en við lok dags í gær. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,65% það sem af er degi og er 5.655,81 stig, samkvæmt upplýsingum Kauphallarinnar.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,61% í gær.

Bakkavör Group hefur hækkað um 1,2% það sem af er degi, Atlantic Petroleum hefur hækkað um 1,03%, Kaupþing banki hefur hækkað um 0,90% og Glitnir hefur hækkað um 0,82%.

Actavis Group er eina félagið sem lækkað hefur það sem af er degi og nemur lækkunin 0,82%, þrátt fyrir að í gær hafi Glitnir gefið út nýtt verðmat á félagið og metur það á 68,1 krónu á hlut en þegar þetta er skrifað er gengið 60,20 krónur á hlut.

Gengi krónunnar hefur veikst um 0,68% og er 129,81 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi banka.