4,6 milljarða króna velta var með hlutabréf í kauphöllinni í dag, sem er með mesta móti. Öll félög í Kauphöllinni lækkuðu í verði. Fyrr í dag greindi Viðskiptablaðið frá því að lækkunin væri helst talin stafa af ótta við horfur efnahagsmála í heiminum, sér í lagi í Kína. Úrvalsvísitalan hafði lækkað um yfir 4% síðdegis en hækkaði síðan nokkuð seinni hluta dags. Hún endaði á að lækka um 2,52% í dag.

Mörg þeirra félaga sem lækkuðu mest eru með tekjur að einhverju eða mestu leyti í erlendri mynt. Össur lækkaði um 4,26%, Marel um 3,47% og Eimskip um 3,35%. Það var þó Nýherji sem lækkaði mest, eða um 4,73% í litlum viðskiptum. Tryggingamiðstöðin lækkaði minnst, um 0,7%.

Mest velta var með bréf Icelandair, eða 1.343 milljónir króna. Verð félagsins lækkaði um 2,51% í dag. Viðskiptablaðið greindi frá því á dögunum að skiptar skoðanir væru meðal greiningaraðila um rétt virði Icelandair. Í nýlegu verðmati Fyrirtækjagreiningar Arion banka var hver hlutur metinn á 32 krónur, en í verðmati Greiningar Íslandsbanka frá 12. ágúst var verðið metið 24,5 krónur á hlut. Verð Icelandair stóð í 27,15 krónum á hlut í lok dagsins.

14,2 milljarða króna viðskipti voru með skuldabréf í Kauphöllinni í dag, en skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,1%. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,1% í 1,5 milljarða króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,5% í 11,9 milljarða króna viðskiptum.