Greining Íslandsbanka spáir því að hagvöxtur verði 5% í ár en til samanburðar gerir Seðlabankinn ráð fyrir 4,6% hagvexti. Í nýrri þjóðhagsspá bankans segir að útflutningur muni taka við af innlendri eftirspurn sem helsti aflvaki vaxtar með hröðum bata í ferðaþjónustu og aukningu á öðrum útflutningi.

Íslandsbanki spáir því að útflutningur muni aukast um 20% á milli ára og innflutningur um 16,5%. Fyrir vikið verði viðskiptajöfnuður í jafnvægi í ár en til samanburðar var 2,8% viðskiptahalli sem hlutfall af VLF í fyrra. Bankinn á von á árlegum 2% viðskiptaafgangi árin 2023-2024. „Þar hjálpast að aukinn útflutningur og bati á viðskiptakjörum en hærra raungengi vegur á móti þegar frá líður.“

Gert er ráð fyrir að ferðamenn verði á bilinu 1,5-1,6 milljónir í ár. Þeir verði svo 1,9 milljónir talsins á næsta ári og 2,1 milljón árið 2024.

„Bjartsýni ríkir innan greinarinnar varðandi komandi sumar og haust. Bókunarstaða og vaxandi tíðni áætlaðra flugferða til og frá landinu benda til þess að fjöldi ferðafólks á komandi fjórðungum gæti orðið á bilinu 80-90% af fjöldanum árið 2019.“

Íbúðaverð hækki um 13% að raunvirði í ár

Bent er á að íbúðaverð hafi hækkað um 8% á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Greiningardeildin á von á áframhaldandi verðhækkunum á íbúðamarkaði á næstu misserum og að íbúðaverð hækki alls um 13% að raunvirði í ár. Með auknu framboði og dvínandi eftirspurn taki þó að hægja á hækkunartaktinum þegar líða tekur á árið og raunhækkun íbúðaverðs verði 1% á næsta ári.

„Fordæmi eru fyrir því að allhratt hægist á hækkunartaktinum eftir miklar verðhækkanir og gerðist það síðast árið 2018 eftir miklar verðhækkanir árin tvö á undan. Við spáum því að íbúðaverð standi í stað að raunvirði árið 2024 en þá hefur jafnvægi myndast á markaðinum.“

Hækkun íbúðaverðs hefur verið helsti drifkraftur vaxandi verðbólgu hér á landi sem mældist 7,2% í apríl. Greining Íslandsbanka spáir því að verðbólga toppi í 8,4% í lok sumars en muni þó reynast þrálátari en áður var spáð. Gerir hún ráð fyrir að verðbólga verði 5,9% að meðaltali á næsta ári og 3,9% árið 2024.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti úr 2,75% í 3,75% í byrjun maí. Íslandsbanki á að stýrivextir nái hámarki á bilinu 5%-6% í lok þessa árs.

„Að því gefnu að þá sé farið að draga úr verðbólgu og eftirspurnarþrýstingi í hagkerfinu áætlum við að vöxtum verði haldið óbreyttum fram eftir árinu 2023 en vextirnir taki að lækka að nýju á seinni helmingi þess árs. Við taki hægfara lækkunarferli í átt að jafnvægisraunvöxtum sem líklega eru á bilinu 1 – 1,5%.“