*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 30. nóvember 2021 12:09

Útgáfurisar höfðu betur gegn Jóhanni

Jóhann Helgason tapar fyrir áfrýjunardómstóli vegna meints stuldar á Söknuði í laginu You raise me up en þarf ekki að greiða tugmilljóna lögfræðikostnað útgáfurisa.

Ingvar Haraldsson
Jóhann Helgason tónlistarmaður.
Einar Falur

Áfrýjunardómstóll í Los Angelessýslu í Bandaríkjunum hefur sýknað norska lagahöfundinn Rolf Lovland og nokkra af stærstu útgáfufélgöum heims af kröfu Jóhanns Helgasonar vegna meints höfundarréttastuldar á laginu Söknuði með útgáfu lagsins You raise me up.

Í dómnum segir að lögmanni Jóhanns hafi ekki tekist að hrekja greiningu sérfræðivitns varnaraðila í málinu, Dr. Lawrence Ferrara, sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki væru veruleg líkindi milli laganna. Dómstóll í Los Angeles hafði áður komist að sömu niðurstöðu.

Söknuður kom út árið 1977 en You raise me up árið 2001. Lagið er heimsfrægt m.a. í flutningi Josh Groban frá árinu 2003 og hljómsveitarinnar Westlife frá árinu 2005. Forstjóri Universal á að hafa sagt að sala lagsins nálgaðist 100 milljón eintaka samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins um dómsmálið. Lögmaður Jóhanns benti áður á fyrir dómi að Lovland hafi komist í margvísleg tengsl við Söknuð og hafi meðal annars heyrt lagið þegar hann var staddur á Íslandi. Þá væru augljós líkindi á milli laganna.

Auk Lovland var fjölda útgáfufélaga stefnt í málinu meðal annars Universal, Apple, Warner og Spotify.

Hins vegar er kröfu varnaraðila í málinu, um að Jóhann greiði lögmannskostnað þeirra, hafnað en krafan nam yfir 40 milljónum króna. Í dómnum segir rétt að aðilar greiði eigin lögmannskostnað þar sem lögsókn Jóhanns hafi að ekki verið að óréttmæt.

Hlýða má á Söknuð og You raise me up hér að neðan: