Útgjöld hins opinbera á mann hafa nánast tvöfaldast frá árinu 1980 til 2008. Leiðrétt fyrir breytingu á verðlagi voru útgjöld á mann rúm ein milljón króna árið 1980 en voru rúmar tvær milljónir króna árið 2008. Er þá ekki tekið tillit til yfirtöku ríkissjóðs á töpuðum kröfum Seðlabankans uppá 192 milljarða króna á árinu 2008. Þetta kemur fram í nýjustu Hagtíðindum Hagstofu Íslands.

Á sama tíma jukust útgjöld ríkisjóðs úr 875 þúsund krónum á mann í 1,5 milljónir króna 2008 og er raunvöxturinn rúmlega 70%. Útgjöld sveitarfélaga á mann hafa aukist mun meira eða nánast þrefaldast (185% vöxtur) á tímabilinu á þennan mælikvarða. Útgjöldin námu 226 þúsund krónum á mann 1980 en voru 646 þúsund krónur árið 2008. Útgjöld almannatrygginga hafa vaxið úr 217 þúsund krónum á mann 1980 í 341 þúsund krónur árið 2008 og er raunvöxturinn því 57% á umræddu tímabili.

Útgjöldin 45% af landsframleiðslu

Af helstu niðurstöðum í Hagtíðindum nefnir Hagstofan að frá árinu 1980 hafa útgjöld hins opinbera vaxið um nálægt 11 prósentustig af landsframleiðslu eða úr 34,1% af landsframleiðslu í 44,8% árið 2008. Á sama tíma jukust útgjöld ríkissjóðs úr 27,5% af landsframleiðslu árið 1980 í 32,2% árið 2008 og útgjöld sveitarfélaga úr 7,1% af landsframleiðslu 1980 í 14,0% 2008. Mikill vöxtur í útgjöldum sveitarfélaga skýrist m.a. af yfirtöku verkefna frá ríkissjóði (eins og grunnskólans) en einnig hefur þjónusta þeirra vaxið jafnt og þétt. Útgjöld almannatrygginga hafa hins vegar vaxið minna á þennan mælikvarða eða úr 6,8% af landsframleiðslu 1980 í 7,4% árið 2008.