*

þriðjudagur, 19. október 2021
Innlent 1. apríl 2021 16:19

Útibú Arion í Borgarnesi á sölu

Arion banki vill 260 milljónir fyrir útibú sitt í Borgarnesi. Bankinn seldi nýlega útibú í Borgartúni. Næsta hús er einnig til sölu.

Ritstjórn
Útibú Arion banka i Borgarnesi. Á myndinni má einnig sjá húsnæði Food Station sem einnig var auglýst til sölu nýlega.
Aðsend mynd

Arion banki hefur sett útibú bankans, við Digranesgötu 2 í Borgarnesi á sölu. Ásett verð er 260 milljónir króna.

Húsið er á þremur hæðum og skráð 1.174 fermetrar. Það var byggt árið 2005 undir bankastarfsemi af Sparisjóði Mýrasýslu. Á jarðhæð er verslunarrými, afgreiðslusalur á annarri hæð og á þriðju hæð er óinnréttað rými sem áður hýsti veitingasal. Hlaðin tjörn er fyrri aftan húsið. 

Næsta bygging, Digranesgata 4 var einnig sett á sölu nýlega líkt og Viðskiptablaðið sagði frá. Það er í eigu Kaupfélags Borgnesinga sem rekur veitingastaðinn Food Station í húsinu.

Útibúið er ekki það eina sem Arion banki hefur sett á sölu að undanförnu en nýlega gekk bankinn á sölu á Borgartúni 18, þar sem bankinn rak útibú um nokkurra ára skeið. Kaupandinn var Virk sem greiddi 1,2 milljarða króna fyrir húsið líkt og Viðskiptablaðið greindi frá.

Stikkorð: Arion banki Borgarnes