Engin nefnd hefur verið skipuð af forsætisráðherra til að gera úttekt á peningamálastefnunni og ekki hefur verið ákveðið hvenær sú vinna mun hefjast, segir Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra.

„Staða er óbreytt í þessum efnum og ekki hefur verið ákveðið hverjir munu standa að úttektinni,“ segir hún.

Geir H. Haarde sagði á ársfundi Seðlabankans í mars síðastliðnum að senn yrði tímabært að gera fræðilega úttekt á Seðlabankanum og meta reynsluna af verðbólgumarkmiðinu frá 2001.

Engin tímamörk voru nefnd en Geir sagði jafnframt: „Að sinni er þó brýnast að taka höndum saman um að komast úr því ölduróti sem íslenska fjármálakerfið er nú statt í vegna hinna alþjóðlegu aðstæðna.“

Gréta sagði tímaramma úttektarinnar enn taka mið af þessu, þ.e. ekki verður ráðist í úttektina á meðan óróinn á fjármálamarkaðnum stendur yfir.

Beðið eftir logninu

Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, sagði í Kastljósi á þriðjudaginn sl. að hann héldi að úttekt á kerfinu myndi fara í gang á næstunni.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .