Þetta er ekki spurning um hvað reglur eða tilskipanir voru innleiddar á síðustu árum. Nú hefur komið í ljós að kerfið í heild var gallað, þ.e.a.s. hið alþjóðlega lagaumhverfi sem ríkti um fjármálastofnanir.

Það var heldur ekki hægt að stoppa útrásarþenslu fjármálafyrirtækjanna þar sem þau voru að starfa samkvæmt þeim reglum sem giltu um EES samninginn.

Þetta segir Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi viðskiptaráðherra í samtali við Viðskiptablaðið aðspurð um auglýsingu Andríkis , útgáfufélags Vef-Þjóðviljans í helstu dagblöðum í gær.

Andríki birti í gær heilsíðuauglýsingu í helstu dagblöðum landsins undir fyrir sögninni „Hér voru engar reglur“ en með auglýsingunni vildi félagið vekja athygli á því að margar reglur og reglugerðir hafi ríkt um starfsemi fjármálafyrirtækja á síðustu árum og kostnaður hins opinbera við að fylgja þeim eftir væri gífurlegur.

Valgerður segir að engar sérreglur hefðu gilt hér á landi heldur hafi þær byggst á evrópsku kerfi sem komið hafi til með EES samningnum.

Hún segir að augljósasta gallann við reglugerðir sambandsins vera að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að fjármálafyrirtæki yrðu gjaldþrota.

„Þetta var ekki hugsað til enda,“ segir Valgerður og vísar þar á evrópskar reglur.

Þá minnir Valgerður jafnframt á að Tryggingasjóður innistæðueigenda hefði einnig verið byggður á reglugerðum EES samningsins.

Valgerður segir að á næstu misserum verði unnið að því að endurskoða reglugerðir innan Evrópusambandsins (ESB) um starfsemi fjármálafyrirtækja. Íslendingar muni hins vegar hafa lítil áhrif á slíkt þar sem við séum ekki hluti af ESB.

Frelsinu voru settar hömlur

Aðspurð hvort íslenskar stofnanir hefðu haft burði til að sinna eftirlitinu með fullnægjandi hætti telur Valgerður svo vera þó vafalaust megi gagnrýna einstaka aðgerðir.

„Frelsinu voru settar hömlur með eftirlitsstofnunum á borð við samkeppniseftirlitið og fleiri,“ segir Valgerður.

Þá minnir hún einnig á að í ráðherratíð sinni hefði Fjármálaeftirlitið orðið sjálfstæð stofnun án afskipta ráðherra. Hún segir að óeðlilegt hefði verið ef ráðherra hefði skipt sér af rekstri stofnunarinnar.

Ekki frjálshyggja heldur markaðshyggja

Valgerður segir að hér á landi hafi ekki ríkt frjálshyggja (líkt og kemur fram í auglýsingu Andríkis) heldur hafi EES gengið út á markaðshyggju.

„Það hefði verið mjög erfitt að fara að stíga það skref til baka, til að mynda með því að fara í frekari ríkisrekstur,“ segir Valgerður.

„Ég er ekki viss um að menn hefðu frekar viljað það og það hefði ekki verið í takt við það sem við vorum að gera á alþjóðavísu.“