,,Eins og mér sýnist málið liggja er það vandamál Breta eða Hollendinga ef ekki er til neinn dómstóll til að skera úr þessari Icesave deilu." Þannig komst sérfræðingur í lögum að orði í samtali við  Viðskiptablaðið.

Þess má geta að ítarleg úttekt er á stöðu mála varðandi Icesave í blaðinu á morgun.

,,Íslendingar skilgreina einfaldlega sína réttarstöðu og segjast eiga að borga töluna x og færa fyrir því sín bestu lögfræðilegu rök. Bretar og Hollendingar segja, nei þið eigið að borga 2x og færa fyrir því sín lagalegu rök. Ef því er neitað af hálfu Íslands er það þeirra höfuðverkur að fá um það bindandi niðurstöðu í dómsmáli hvort okkur er skylt að borga 2x, en ekki bara x," sagði þessi heimildarmaður sem þekkir vel til evrópskra dómsstóla. Hann vildi ekki koma fram undir nafni.

Geta ekki höfðað mál fyrir EFTA eða EB dómstól

Viðkomandi sagðist ekki geta séð að Bretar og Hollendingar geti höfðað slíkt mál fyrir EFTA-dómstólnum eða fyrir dómstól EB, þar sem lögsögureglur þessara dómstóla gera ekki ráð fyrir að þeir skeri úr deilu milli EFTA ríkis og ESB ríkis.

,,Svona mál er er líka Mannréttindadómstólnum óviðkomandi, hafi einhverjum dottið sú leið í hug. Að því gefnu að ekki sé samkomulag um gerðardóm, t.d. á grundvelli EES-samningsins, er eina leiðin, til að fá skorðið úr um skyldur íslenska ríkisins með bindandi hætti, sú að Bretland og Holland höfði mál fyrir íslenskum dómstólum og þá skaðabótamál vegna tjóns sem leiðir af meintum afglöpum íslenskra yfirvalda.   Þá vaknar spurningin, sem ég á ekki skýrt svar við, hvort það eru breska ríkið og hollenska ríkið sem höfða slíkt mál fyrir íslenskum dómstólum - sem reyndar er aldrei gert í þjóðarétti að eitt ríki höfði mál gegn öðru fyrir dómstólum þess síðarnefnda - eða hvort það eru einstakir sparifjáreigendur sem höfða skaðabótamál vegna þess sparifé þeirra var ekki verndað eins og þeir telja sig eiga rétt til."

Yrði lítill árangur af dómsmálum

Heimildarmaður sagðist talja að ýmislegt benti til þess að árangur af þessum málaferlum, ef til þeirra yrði stofnað, yrði lítill, hvort heldur ríkin sjálf höfða slíkt mál (sem þau myndu auðvitað aldrei gera) eða einstakir sparifjáreigendur.

,,Tvennt má nefna. Óeðlilegt er að talið yrði að skilyrðum skaðabótaskyldu væri fullnægt, sem er þó flókið og langt má að rökstyðja. Svo má nefna þótt einstaklingar höfðuðu málið er alveg eins víst að þeir væru ekki lengur taldir eiga hagsmuni af slíkum málarekstri, enda hafa þeir þegar fengið sitt frá breska og hollenska ríkinu og hafa þar af leiðandi ekki beðið neitt tjón, ef svo má segja. Ríkin gætu fræðilega séð höfað málið fyrir íslenskum dómstólum á þeim grundvelli að þeir hafi fengi kröfur sparifjáreigendann framseldar. Á hinn bóginn sé ég ekki þau myndi höfað slíkt mál þar sem það væri mikið þjóðréttarlegt stílbrot í samskiptum ríkja og raunar óhugsandi pólitískt séð."