Eitt helsta áhyggjuefnið sem Markorka, eins og mörg önnur íslensk fyrirtæki í hugverkaiðnaði, stendur frammi fyrir er skortur á fólki sem hefur menntun og þekkingu sem nýst getur fyrirtækinu til vaxtar. Jón Ágúst Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Marorku, segir að "sofandaháttur" hafi einkennt umræðu um þessi mál hér á landi.

Til að mynda sé ekki fyrir hendi nein heildstæð atvinnu- og menntastefna hér á landi, þar sem greint er nákvæmlega hvernig menntakerfi landsins, ekki síst á háskólastigi, getur stutt við atvinnulífið. "Það er áhyggjuefni hversu mikill skortur er fólki í atvinnulífinu með ýmis konar tæknimenntun. Þetta á jafnt við um iðn- og háskólamenntun. Það er bráðnauðsynlegt að bregðast við ef ekki á illa að fara því það yrði beinlínis sorglegt, ekki síst í ljósi þess endurreisnarstarfs sem nú á sér stað, ef hraður vöxtur í tæknigeiranum þyrfti að fara fram utan landsteinanna vegna þess að framboð af fólki hér á landi væri ekki nógu mikið," segir Jón Ágúst.Þrátt fyrir að efnahagslíf landsins hafi á síðustu tæpu þremur árum gengið í gegnum hreinsunareld, með falli krónunnar og bankanna, þá hefur mikill vöxtur einkennt hugverkaiðnaðinn.

Jón Ágúst segir að um þúsund ný störf á ári verði til innan hans. Líklegra sé að fjöldi starfa muni vaxa á næstu árum. Þórður Magnússon, stjórnarformaður Marorku, sem situr m.a. í stjórn Háskólans í Reykjavík, tekur undir þetta með Jóni Ágústi og segir að heildstæð sýn á atvinnu- og menntamálin í landinu séu nauðsynlegur hluti þessi að móta efnahagsstefnu í landinu. Hann segir margt vera vel gert í þessum málum en ef þær aðstæður skapist, að fyrirtæki séu nauðbeygð til þess að vaxa eða starfa utan landsteinanna þá sé uppi alvarleg staða sem þurfi að bregðast við. Þó atvinnuleysi nú sé alltof mikið þá vanti sárlega starfsfólk í ýmis sérhæfð tæknistörf, svo sem í tölvuiðnaði.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.