Ríkislögreglustjóri hefur sent frá sér viðvörun vegna netsíðna þar sem gefið er í skyn að sá sem þær skoðar hafi unnið stóran lottóvinning. Kemur fram að slíkar vefsíður eru nú í sumum tilvikum á íslensku. Er fólk hvatt til að gefa ekki upplýsingar um sig á netsíðum af þessu tagi.

Fólk blekkt og ginnt

Á slíkum síðum er algengt að reynt sé að telja fólki í trú um að það hafi unnið háar fjárhæðir í lottói. Þurfi viðkomandi að flýta sér að hafa samband við tengilið, sem kynnir þá ýmis skilyrði fyrir að fá vinninginn greiddan.

Þekkt eru tilvik þar sem reynt var að ginna „verðlaunahafa” til að eyða margfaldri uppgefinni vinningsupphæð í þeim tilgangi að hljóta sjálf verðlaunin. Fleiri útgáfur af samsvarandi fjársvikum eru til.