Breskir bankar hafa áhyggjur af því að lán með ríkisábyrgð til minni fyrirtækja fyrir allt að 50 þúsund pund, um 9 milljónir króna, gæti reynst bönkunum flókin úrlausnar. Úrvinnsla þeirra sé flókin og geti tekið tíma.

Anne Boden, forstjóri netbankans Starling, kom fyrir breska þingnefnd í morgun og sagði hættu á flóði lánaumsókna að því er The Times greinir frá. Mikilvægt væri að bresk stjórnvöld gæfu út að fyrirtæki þyrftu ekki að örvænta og að allir sem uppfylltu skilyrðin fengju slík lán.

Viðskiptavinir Barclays kvörtuðu í morgun vegna vandræða bankans við að afgreiða allar umsóknir. Opnað var fyrir þær klukkan 9 í morgun og bárust 200 umsóknir á fyrstu mínútunni. Matt Hammerstein, forstjóri Barclays á Bretlandi sagði að umsóknarferlið ætti að virka eðlilega síðar í dag og ekki væri rétt að kerfið hefði hrunið.

Lánin geta numið frá 2 til 50 þúsund pundum og eru ætlaðar fyrirtækjum sem hafa átt erfitt með að fá úr öðrum lánapakka sem gengur undir nafninu CBILS. Þau lán eru með 80% ríkisábyrgð og nema allt að 5 milljónum punda á 3-5% vöxtum. Smærri lánin verða á 2,5% vöxtum en verða vaxtalaus í upphafi.

Áhyggjur af örlánum á Íslandi

Einnig hafa verið viðaðar áhyggjur af lánum til minni fyrirtækja hér á landi. Íslensk stjórnvöld hafa boðað lán til fyrirtækjum sem orðið fyrir verulegu tekjufalli upp á sex milljónir króna með fullri ríkisábyrgð. Umsýsla lánanna á að vera í höndum bankanna. Samtök fjármálafyrirtækja og Ríkisendurskoðun hafa velt vöngum hvort ráðhagurinn sé heppilegur. SFF benda á að kostnaður felist í því að sjá um umsóknir lánanna og innheimtu og þau vaxtakjör sem stjórnvöld stefni að séu lægri en þeir vextir sem bankarnir sjálfir geti fjármagnað sig á hjá Seðlabankanum.

Sjá einnig: „Til hvers eru bankar?“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, kallaði eftir því að í Kastljósi á fimmtudaginn bankarnir öxluðu ábyrgð og tækju þátt í uppbyggingarstarfinu sem fram undan væri.