Hvergi í Evrópu er jafn mikið bil á milli almenns virðisaukaskatts annars vegar og virðisaukaskatts á gistingu og matsölu hins vegar eins og á Íslandi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Rannsóknarstofnunar atvinnulífsins á Bifröst um umfang skattsvika og leiðir til úrbóta.

Almennur virðisaukaskattur á Íslandi er með því hæsta sem gerist í Evrópu, en einungis Ungverjaland leggur á hærri almennan virðisaukaskatt. Íslendingar eru hins vegar mjög neðarlega þegar kemur að virðisaukaskattheimtu á tvær megin greinar ferðaþjónustu, veitingasölu og gistiþjónustu. Fullur virðisaukaskattur er þó lagður á sölu áfengra drykkja.

Þetta mikla bil milli virðisaukaskattþrepa getur haft slæm áhrif vegna þess að sami söluaðili getur selt vöru og þjónustu í báðum þrepum. Því getur verið hvati fyrir söluaðila að hagræða verðlagningu þannig að þeir greiði lægri virðisaukaskatt en ella.

Í skýrslunni segir:

„Það er bæði mat skýrsluhöfunda og viðmælenda að í núverandi fyrirkomulagi felist töluvert mikill hvati til hliðrunar eða tilfærslu á álagningu. Starfsfólk eftirlitsdeildar Ríkisskattstjóra benti þannig á að „Vaskþrepaflakk“ væri sú aðferð til skattaundanskota aðila í veitingaþjónustu sem það yrði mest vart við í sínu eftirliti. Ein hugsanleg leið til þess að koma í veg fyrir slíkt væri að færa sölu á mat og sölu á áfengum drykkjum í sama virðisaukaskattsþrep.“

Fjallað er ítarlega um skýrsluna í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaði dagsins hér að ofan undir liðnum tölublöð.