Stjórn kaþólsku kirkjunnar í Vatíkaninu í Róm fjárfesti hluta af gjafafé sem ætlað er til fátækra í bíómynd um samkynhneigðan söngvara og á afleiður sem veðjuðu á að bandaríska bílaleigan Hertz gæti staðið undir skuldum sínum.

Fjárfestingin í afleiðunum var þó þremur árum áður en Frans páfi, æðsti yfirmaður kirkjunnar, sagði árið 2018 að afleiður væru tímasprengjur sem ,,hvettu til vaxtar fjárfestinga byggðum á heppni sem veðjuðu á óheppni annarra, sem sé óásættanlegt út frá siðfræði."

Veðmálið um Hertz gekk ekki eftir þar sem Herz bílaleigan fór í gjaldþrot mánuði síðar, en sá sem bar ábyrgð á fjárfestingunni, kardínálinn Giovanni Angelo Becciu, hefur verið settur út af sakramentinu, í óeiginlegri merkingu, síðan.

Hefur Becciu kardínáli nú verið sviptur kardínálastöðunni og verið ásakaður um að hafa misnotað stöðu sína, en hann var næstæðsti yfirmaður stjórnsýslu Vatíkansins, sem er sjálfstætt ríki undir stjórn Kaþólsku kirkjunnar, á árunum 2011 til 2018.

Stjórnsýslueiningin ber ábyrgð á því að stýra þeim fjármunum sem kirkjan safnar frá kaþólikkum út um allan heim. Páfinn bað kardínálann að stíga til hliðar úr öðru valdamiklu embætti í síðasta mánuði vegna ásakana um misferli í meðferð fjármuna kirkjunnar.

Fjárfest í lúxisíbúðum og bíómynd

Aðrar fjárfestingar sem fulltrúar sem kardínálinn skipaði til að stýra fjármununum voru meðal annars fjármögnun bíómyndarinnar Rocketman um ævi samkynhneigða söngvarans Elton John, að því er FT greinir frá.

Þess má geta að kaþólska kirkjan hefur ekki lagt blessun sína yfir hjónabönd samkynhneigðra líkt og sumar kristnar kirkjudeildir hafa gert á nýliðnum árum. Tekjur myndarinnar námu í heild um 195,2 milljónum Bandaríkjadala en framleiðslukostnaðurinn var um 40 milljónir dala.

Jafnframt fjárfesti kirkjan í lúxusíbúðum í Knightsbridge hverfinu í London og í fjármálagerningum tengdum skuldum ítalska ríkisins við sjúkrahús í eigu kaþólsku kirkjunnar.

Sjóðunum stýrt í gegnum Sviss og Lúxemborg

Rannsóknin á fjármálamisferlinu snýst að hluta til um fjárfestingu í gegnum banka í Luxemborg í húsnæði í London sem olli miklu tapi en kardínálinn skrifaði sjálfur undir heimild til fjárfestingarinnar. Aðrar fjárfestingar, líkt og í afleiðunum, voru gerðar af fjárstýringarfyrirtækjum í Sviss sem höndluðu með fjármagn kirkjunnar.

Fjárfestingar undir stjórn Becciu kardínála hafa verið undir smásjánni frá því að lögreglan í Vatikaninu gerði húsleit hjá stjórnsýslunni vegna fjárfestinga í London. Becciu hafnar ásökununum og heitir því að hreinsa nafn sitt.