VBS fjárfestingarbanki hefur gengið frá samkomulagi við ríkissjóð um lán til 7 ára vegna skuldbindinga bankans við Seðlabanka Íslands að því er segir í tilkynningu. Með samningnum er tryggt að ríkissjóður og þar með skattgreiðendur, fái að fullu greitt skuldbindingar þær sem VBS fjárfestingarbanki tókst á hendur vegna endurhverfra viðskipta við Seðlabankann.

Í tilkynningu kemur fram að auk þessa mun samningurinn tryggja langtímafjármögnun á meginhluta skulda VBS fjárfestingarbanka, og þar með renna styrkum stoðum undir framtíð félagsins, hagsmuni viðskiptavina, hluthafa og starfsfólks.

Lánasamningurinn inniheldur skilyrði um eiginfjár- og lausafjárstöðu auk annarra skilyrða og veitir hinu opinbera ríkari aðgengi að upplýsingum er varða rekstur og rekstrarhæfi bankans.

Stefnt er að því að birta endurskoðaðan ársreikning VBS fjárfestingarbanka þann 31.mars næstkomandi.