Fyrirhugað er að skipta upp starfsemi fjögurra ríkisstofnana sem nú heyra undir samgönguráðuneytið og sameina þær síðan í tvær nýjar stofnanir, framkvæmdastofnun og stjórnsýslustofnun sem enn á þó eftir að finna nöfnin á. Þarna er um að ræða Vegagerðina, Siglingastofnun, Flugmálastjórn Íslands og Umferðastofu. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, hefur yfirumsjón með þessu verkefni. Hún segir að stýrihópur vinni nú að verkefninu sem miði vel. Ef allt gangi að óskum þá verði lagt fram lagafrumvarp um hinar nýju stofnanir fyrir vorið. Miðað er við að þær geti þá tekið til starfa 1. janúar 2011, en Ragnhildur leggur þó áherslu á að þetta sé með fyrirvara um að allt gangi upp.

Grunnurinn að þessu mun vera athugasemd Ríkisendurskoðunar sem kom fram í skýrslu árið 2007. Var þar gagnrýn að bæði hjá Vegagerðinni og Siglingastofnun væru sömu aðilar að annast allt verkferli framkvæmda frá upphafi til enda samhliða eftirlitshlutverki. Lagði Ríkisendurskoðun því til í júní 2008 að sett yrði á fót sérstök stjórnsýslustofnun sem aðskilin yrði framkvæmdahluta þessara stofnana. Flugmálastjórn er nú þegar hrein stjórnsýslustofnun eftir að framkvæmdaþáttur var færður undir Flugstoðir. Sama gildir um Umferðastofu og verður þessum tveim stofnunum þá væntanlega steypt saman í eina ásamt stjórnsýsluhluta Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar.

Uppstokkun fyrrnefndra stofnana er ekki talin leiða til sparnaðar í rekstri, enda hefur reynslan sýnt að slíkt getur kostað talsverða fjármuni. Það er hins vegar talið nauðsynlegt að fara þessa leið til að sömu aðilar séu ekki bæði að undirbúa verkefni, útdeila verkefnum og fjármunum og hafa síðan eftirlit með sjálfum sér.