„Hafi einhverjum dottið í huga að það hefði ekki áhrif á viðkomu sveitarfélagsins að leggja sérstakan skatt á grundvallar atvinnuveginn sem nemur rúmlega 1,7 milljarði (rúmlega 400 þúsund á hvern íbúa) þá sýna rekstrartölur Vestmannaeyjabæjar annan veruleika." Þetta segir í bréfi frá Elliða Vignissyni þar sem hann kynnir fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2015.

Í tilkynningunni kemur fram að áætlað sé að mikill samdráttur verði á útsvarstekjum frá því sem áætlanir gerðu ráð fyrir, á þessu ári og því næsta. Þannig hafi tekjur Vestmannaeyjabæjar verið áætlaðar 1.928 milljónir í ár en í október hafi vantað 448 milljónir í bæjarsjóð til að þær áætlanir stæðust. Í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár hafi því væntar tekjur verið lækkaðar úr 1.928 milljónum í 1.720 milljónir.

Afgangur þrátt fyrir samdrátt

„Áætlunin gerir þó ráð fyrir að rekstrarafgangur á árinu verði 140 milljónir í A-hluta og 176 í samstæðu. Má því ljóst vera að Vestmanneyjabær nýtur nú góðs af því að hafa greitt upp megnið af vaxtaberandi skuldum í góðærinu og hagrætt verulega í rekstri," segir í tilkynningu Elliða.

Hann segir jafnframt að auknar álögur á sjávarútveg sem felist í veiðigjöldum hafi haft neikvæð áhrif á atvinnulíf í Vestmannaeyjum. „Álögur á sjávarútveg hafa fækkað útgerðum, þjappað aflaheimildum saman á færri hendur og fækkað störfum," segir Elliði Vignisson.

Fjárhagsáætlun verður tekin til seinni umræðu í bæjarstjórn þann 27. nóvember næstkomandi.