*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 11. júlí 2020 12:01

Veirufaraldurinn eyddi metárinu

Tekjur Base Parking hurfu vegna COVID-19. Bifreiðaskoðunarþjónusta og sendingaþjónusta fyrir verslanir bjargaði fyrirtækinu.

Sveinn Ólafur Melsted
Ómar Hjaltason og Davíð Helgi Andrésson, eigendur Base Parking.
Eyþór Árnason

Það er alveg svakalegt áfall að lenda í 100% tekjufalli nánast á einni nóttu," segir Ómar Hjaltason, framkvæmdastjóri Base Parking, en fyrirtækið hefur frá því um sumarið 2017 boðið upp á bílastæðaþjónustu á Keflavíkurflugvelli. Eftir að COVID-19 faraldurinn skall á og nær allar flugsamgöngur lögðust af, þurftu Ómar og meðeigandi hans, Davíð Helgi Andrésson, að leggjast í mikla vinnu til að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækisins. „Árið 2020 fór mjög vel af stað hjá okkur, það stefndi í metár og við vorum farin að huga að páskatörninni, þar sem við reiknuðum með að þjónusta um 1.500 viðskiptavini."

Raunin varð þó önnur vegna fyrrnefnds heimsfaraldurs og í stað þess að þjónusta fjölda viðskiptavina í kringum páskana þurfti Base Parking að horfast í augu við þá staðreynd að viðskiptavinirnir yrðu engir. Ómar segir að sú mikla óvissa sem faraldurinn hafði með sér í för hafi reynst hvað erfiðust, enda var engin leið til að vita hve lengi ástandið myndi vara og hverjar afleiðingar þess yrðu.

„Eftir að flug frá landinu fellur nánast alfarið niður misstum við líkt og fyrr segir allar okkar tekjur. Það var mjög skrítin tilfinning að mæta til vinnu og vera með ekkert fyrir stafni; enga viðskiptavini og engin verkefni fyrir starfsfólkið okkar. Við eigendurnir mættum upp á skrifstofu í hálfgerðu sjokki og fórum að velta fyrir okkur hvað við gætum í ósköpunum gert. Við þurftum að færa okkur úr því að einblína á hvernig við gætum veitt okkar viðskiptavinum sem besta þjónustu, yfir í að leita leiða til að halda fyrirtækinu gangandi."

Bifreiðaskoðun og sendingaþjónusta

Ómar og Davíð dóu þó ekki ráðalausir og hófust handan við að leita leiða til að halda starfseminni áfram. Í lok mars hóf Base Parking samstarf við Frumherja, sem fólst í því að sækja bíla fyrir viðskiptavini, fara með þá í skoðun hjá Frumherja og skila þeim svo til baka skoðuðum. Samhliða þessu gátu viðskiptavinir pantað þrif og dekkjaskipti.

„Við höfðum áður boðið viðskiptavinum okkar upp á að fara með bílinn þeirra í skoðun á meðan þeir voru í útlöndum. Fyrsta hugmynd sem við fengum eftir að flugferðir lögðust af var að bjóða fólki á höfuðborgarsvæðinu upp á að sjá um að fara með bílinn þeirra í skoðun. Í dag hafa um hundrað manns nýtt sér þessa þjónustu og þetta samstarf við Frumherja bjargaði í raun fyrirtækinu okkar."

Einnig var ákveðið að bjóða upp á nýja þjónustu sem heitir Base Sendingar. Þjónustan felur í sér útkeyrslu á vörum, fyrir verslanir, sem keyptar hafa verið í gegnum netverslun og eru sendingarnar keyrðar út samdægurs. „Líkt og samstarfið við Frumherja, lék þetta lykilhlutverk í að bjarga framtíð Base Parking," segir Ómar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér