Bankasýsla ríkisins hefur birt 46 blaðsíðna skjal með athugasemdum sínum við skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars. Bankasýslan segist ósammála um flest þau atriði sem Ríkisendurskoðun segir að hefði betur mátt fara í útboðinu. Þá séu ummæli Guðmundar Björgvins Helgasonar ríkisendurskoðanda umhugsunarverð.

„Þótt tekið hafi verið mið af ýmsum ábendingum í endanlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar og áferð skýrslunnar tekið merkjanlegum breytingum er þar enn að finna hugleiðingar og ýmsar illa rökstuddar ályktanir sem ekki verður séð að eigi sér stoð í því lagaumhverfi sem Bankasýsla ríkisins starfar samkvæmt,“ segir Bankasýslan. Óheppilegt sé að eftirlitsstofnunin geri ekki betur grein fyrir sjónarmiðum sínum.

Ummæli Guðmundar ófagleg

Þá segir stofnunin umhugsunarvert að í sambandi við ályktanir í endanlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar að haft var eftir Guðmundi Björgvin Helgasyni ríkisendurskoðanda, áður en Bankasýslunni gafst kostur á að gera athugasemdir við skýrsludrög, að skýrslan myndi „vekja athygli“.

„Þar með skapaði ríkisendurskoðandi væntingar meðal almennings og stjórnmálamanna um „athyglisverðar“ niðurstöður stjórnsýsluúttektarinnar áður en vinnu hans var lokið og að óséðum athugasemdum Bankasýslu ríkisins.

Að mati Bankasýslu ríkisins eru síðarnefnd ummæli ríkisendurskoðanda, sem er trúnaðarmaður Alþingis, ekki aðeins ófagleg og til þess fallin að grafa undan trausti á honum og þeirri vinnu sem nú liggur fyrir, heldur vekja þau spurningar um hvort til staðar séu slíkar aðstæður að með réttu megi draga óhlutdrægni hans í efa.“

Bankasýslan segir að við blasi að hefði Ríkisendurskoðun tekið mið af ítarlegum athugasemdum sínum hefði „skýrslan litla sem enga athygli vakið og varla staðið undir þeim væntingum sem ríkisendurskoðandi hafði sjálfur skapað með ummælum sínum“.

Meginreglum fylgt í hvívetna

Líkt og fyrr segir eru athugasemdir Bankasýslunnar ítarlegar og stofnunin tekur jafnframt fram að ekki megi líta svo á að athugasemdirnar sem fram koma í skjalinu séu tæmandi eða endanlegar.

Meðal þess sem Bankasýslan tekur fyrir er umfjöllun um að hún hafi gengið í berhögg við meginreglur laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þeim hafi verið fylgt „í hvívetna með opnu söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni, svo og sanngjörnum skilyrðum og jafnræði meðal tilboðsgjafa“.

„Ekkert í skýrslu Ríkisendurskoðunar fær hnekkt því mati eða leiðir til annarrar niðurstöðu. Þá stuðlaði tímasetning og stærð útboðsins að framgangi markmiðs fjárlaga fyrir árið 2022 um að afla 75 ma.kr. á árinu með sölu á hlutum í Íslandsbanka. Þannig aflaði Bankasýsla ríkisins 2/3 hluta þessarar fjárhæðar á fyrsta fjórðungi ársins.“

Þá segir Bankasýslunnar að þegar um ákvarðanir eru teknar sem byggja á „matskenndum lagagrunni“ er að ræða þurfi að hafa í huga að eftir á sé ávallt hægt að komast að annarri niðurstöðu en gert var sé innbyrðis vægi sjónarmiða breytt.

„Af því leiðir að ákveðin takmörk eru fyrir því hversu langt eftirlitsaðilar, eins og Ríkisendurskoðun, sem ekki býr yfir þeirri sérþekkingu sem Bankasýsla ríkisins gerir, geta gengið við endurskoðun á slíkum ákvörðunum. Slík endurskoðun á helst við ef bersýnilega má draga þá ályktun af gögnum málsins að mat Bankasýslu ríkisins hafi ekki byggst á fullnægjandi grundvelli eða verið ómálefnalegt. Þess sjást engin dæmi í söluferlinu.

Til stuðnings framangreindu má benda á að gengið er langt í að endurskoða ákvarðanir Bankasýslu ríkisins um verð, magn og úthlutun og efast um vægi þeirra sjónarmiða sem höfð voru til hliðsjónar við heildarmat, án fullnægjandi rökstuðnings og án heildarmats, en voru ítarlega rökstudd af hálfu stjórnvalda áður en ákvörðun var tekin.“

Þá segir mótmælir Bankasýslan einnig harðlega að eftirspurn hafi verið vanmetin þegar ákvarðanir um úthlutun og verð voru teknar.

„Allar upplýsingar sem máli skiptu lágu fyrir er ákvarðanir voru teknar, heildarmyndin var skýr og yfirsýn Bankasýslu og ráðgjafa hennar góð.“