Stefán Bragi Bjarnason, fjármálastjóri Vélaborgar, segist nú vera bjartsýnn á að það takist að koma fyrirtækinu í gegnum þá efnahagslægð sem nú ríkir. Slíkt sé þó ekki einfalt á tímum þegar bankakerfið er harðlokað varðandi fyrirgreiðslu til innflutningsfyrirtækja í vinnuvélageiranum. Því hafi verið farin sú leið að styrkja starfsemi fyrirtækisins með uppkaupum á lagerum gjaldþrota fyrirtækja í vinnuvélaþjónustu á hagstæðu verði. Það sé nú farið að skila sér í aukinni veltu og fjölgun viðskiptavina.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu á fimmtudag er Vélaborg nú komin með stærsta vörulager af íhlutum og rekstrarvörum í vinnuvélar á Íslandi. Hjá Vélaborg og systurfélögum, VB Landbúnaði og VB Vörumeðhöndlun, starfa 55 manns, þar af 10 í varahlutum og yfir 20 í þjónustu.

Keyptu tvo lagera

„Seint á síðasta ári festu eigendur Vélaborgar kaup á öllum varahlutalager Vélavers. Eftir þau kaup hefur fyrirspurnum til Vélaborgar sem og útvegun varahluta fjölgað gríðarlega. Starfsmenn Vélaborgar í varahluta- og þjónustudeild hafa lagt sig alla fram um að leysa úr þeim vandamálum viðskiptavina er upp koma," segir Stefán.

Eigendur Vélaborgar gerðu svo samning í mars sl. við þrotabú Kraftvéla ehf. um kaup á öllum varahluta- og rekstrarvörulager Kraftvéla sem lýst var gjaldþrota í desember í fyrra. Nú er lokið flutningi lagersins yfir í húsnæði Vélaborgar að Krókhálsi 5F í Reykjavík og er sala úr honum  þegar hafin. Þá eru Stefán og félagar að skoða möguleika á kaupum á fleiri lagerum gjaldþrota fyrirtækja.

Stefán segir að þetta sé m.a. afleiðing af því að nær allur vélageirinn er gjaldþrota. Stefán segir ljóst að ekki verði hægt að selja alla þessa varahluti á íslenskum markaði. Því sé stefnt að því að kynna valdar vörur af lager Vélavers á vinnuvélasýningu Bauma sem fram fer í Þýskalandi dagana 19. til 25. apríl nk.