Gert er ráð fyrir að velta Actavis verði yfir 1,3 milljarðar evra (80 milljarðar króna) á árinu 2006 í kjölfar kaupanna á Alpharma og að hagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) í hlutfalli af veltu verði 19-20%. Þess er vænst að tekjur félagsins verði yfir 1,5 milljarðar evra og að EBITDA-framlegð verði um 20% á árinu 2007. Actavis hefur tryggt sér um 1.413 milljónir evra til að fjármagna kaupin og endurfjármagna meirihluta núverandi skulda félagsins. Alþjóðlegi bankinn UBS tryggir 808 milljóna evra lán til 5 ára og 250 milljóna evra veltulán. Íslandsbanki hf. og Landsbanki Íslands hf. tryggja 354 milljónir evra sem forgangshlutabréf.

Alpharma var stofnað í Noregi 1903 en félagið sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu á samheitalyfjum. Fyrirtækið er með um 75 lyf í þróun fyrir Bandaríkin og Evrópu og 11 umsóknir um markaðsleyfi. Starfsmenn samheitalyfjasviðs Alpharma eru rúmlega 2.800 talsins og er starfsemi þess í 11 löndum. Félagið er í hópi 8 stærstu samheitalyfjafyrirtækja Bandaríkjanna og það fjórða stærsta í Bretlandi. Auk þess er félagið með starfsemi í Kína og Indónesíu.

Kaupin eru í samræmi við þá stefnu Actavis að vera í hópi leiðandi fyrirtækja á alþjóðlegum samheitalyfjamarkaði. Stjórnendur félagsins telja að framtíðarhorfur sameinaðs félags séu góðar og að árangur þess muni áfram skipa því í hóp arðsömustu félaga á sviði samheitalyfja segir í tilkynningu félagsins.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis Group, segir þetta um kaupin í tilkynningu félagsins: ?Það hefur verið yfirlýst stefna Actavis að verða á meðal fimm stærstu samheitalyfjafyrirtækja heims. Með kaupunum styrkist sala á eigin vörumerkjum til muna á stærstu mörkuðum félagsins í Bandaríkjunum og Evrópu. Jafnframt skapast töluverð tækifæri til samlegðar, einkum á sviði sölu- og markaðsmála og í framleiðslu. Þá tel ég félagið vera mjög vel í stakk búið til frekari vaxtar og að kaupin á Alpharma séu til þess fallin að auka arðsemi hluthafanna til lengri tíma litið.?