Velta í dagvöruverslun minnkaði um 2,3% í apríl síðastliðnum miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi. Á breytilegu verðlagi varð hins vegar hækkun á veltu í dagvöruverslun um 11,1%.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Hækkun á verði dagvöru á einu ári var 13,7% og milli mánaðanna mars og apríl hækkaði verð á dagvöru um 6,2% samkvæmt mælingum Hagstofunnar.

Á milli mánaðanna mars og apríl minnkaði velta dagvöruverslana um 10% á föstu verðlagi og um 4,4% á breytilegu verðlagi.

Við samanburð á veltu dagvöruverslunar á milli ára ber að hafa í huga að í fyrra voru páskarnir í apríl en í mars í ár. Páskarnir hafa ávallt í för með sér aukna dagvöruverslun, segir í skýrslunni.

Sala áfengis jókst um 3,7% í apríl miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og um 8% á breytilegu verðlagi.

Í apríl var velta áfengisverslunar 1,6% meiri en í febrúar þar á undan miðað við breytilegt verðlag og á föstu verðlagi nam aukningin 0,4%. Verð á áfengi hækkaði um 4,1% frá því í apríl í fyrra.

Aukning varð í fataverslun á milli ára og enn meiri í skóverslun. Fataverslun jókst um 11,8% í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 17% á breytilegu verðlagi.

Veltan jókst um 6,6% í apríl miðað við mánuðinn þar á undan á breytilegu verðlagi og um 2,1% á föstu verðlagi. Verð á fötum hækkaði um 4,7% á einu ári.

Mikil aukning varð í skóverslun í apríl eða 17,1% á milli ára á föstu verðlagi og um 19,8% ef miðað er við mars þar á undan. Verð á skóm í apríl hafði hækkað um 2,9% frá því í apríl í fyrra.

Í apríl minnkaði velta í húsgagnaverslun um 10,3% á föstu verðlagi miðað við mánuðinn á undan og um 7,7% á föstu verðlagi. Verð á húsgögnum hækkaði um 2,9% frá mánuðinum á undan og hefur hækkað undanfarna mánuði eins og aðrar vörur.

Samanlögð velta í þeim flokkum smásöluverslunar sem mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar ná til jókst um 2,3% á milli apríl á þessu ári og apríl í fyrra á föstu verðlagi en minnkaði um 7,5% á milli mánaða.

„Hinn mikli vöxtur sem verið hefur í dagvöruverslun frá því í mars 2007 hefur skyndilega snúist við. Líkleg ástæða er sú að vöruverð hefur hækkað, blikur eru á lofti í efnahagsmálum og ætla má að neytendur velji því í auknum mæli ódýrari matvæli. Þá er vert að hafa í huga við samanburð á veltu milli ára að páskarnir, sem ávallt hafa í för með sér aukna veltu í dagvöru, voru í mars á þessu ári en í apríl í fyrra,“ segir í skýrslu Rannsóknasetur verslunarinnar.