Heildarvelta Opin Kerfi Group á fyrri helmingi ársins 2005 var 5.635 milljónir króna, samanborið við 6.328 milljónir á sama tíma í fyrra, þegar Skýrr og Teymi eru ekki tekin með. Meira en helmingur af samdrættinum skýrist aðeins af sterkari íslenskri krónu gagnvart þeirri sænsku og dönsku en 68% teknanna eiga nú uppruna sinn í erlendri starfsemi félagsins. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 177 milljónir króna, samanborið við 161 milljón árið áður, án Skýrr og Teymis og vex sem hlutfall af tekjum umtalsvert á milli ára. Niðurstaðan er engu að síður undir áætlun og er það að mestu vegna verulegra frávika í vörusölu hjá Kerfi AB.

Þrátt fyrir sterkara gengi íslensku krónunnar og minnkun í vörusölu í Svíþjóð gera forráðamenn félagsins ráð fyrir að EBITDA hagnaður ársins 2005 verði svipaður og hann var 2004 án Skýrr og Teymis. Þekktar árstíðabundnar sveiflur í rekstrinum gera það að verkum að þriðji árshluti er ávallt mjög slakur en sterkur síðasti fjórðungur skilar á móti því að seinni árshelmingur sé að öllu jöfnu nokkru betri en sá fyrri.

Hagnaður samstæðunnar eftir skatta var 86 milljónir króna á tímabilinu, en var á fyrra ári 99 milljónir króna, með Skýrr og Teymi. Eiginfjárhlutfall félagsins er 30% og arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 12,3% sem er helmingi meira en á fyrra ári. Veltufé frá rekstri á fyrri árshluta var 107 milljónir króna. Fjöldi starfsmanna er 425.