Í janúar jókst velta í smásöluverslun hér á landi líkt og hefur átt sér stað undanfarna mánuði. Þó dróst saman fata- og skóverslun ef horft er til janúar í fyrra.

Jafnframt hefur verðlag farið lækkandi í öllum verðflokkum sem mæling Rannsóknarseturs verslunarinnar nær til, nema áfengis, en það hækkaði þó einungis um 0,5% frá því fyrir ári síðan.

Verð lækkar í dagvöruverslunum

Jókst velta í stærsta flokknum, dagvöruverslun um 4,3% frá janúar fyrir ári síðan og um heil 7,5% ef leiðrétt er fyrir verðlagi ásamt daga- og árstíðabundnum þáttum. Var varðið á dagvöru jafnframt 1,3% lægra en fyrir ári síðan.

Áfengissala jókst þrátt fyrir verðhækkunina svo um 5% milli ára.

Rúmlega 12% samdráttur í fataverslun

Janúarútsölur virðast ekki hafa aukið fatasöluna mikið, en veltan dróst saman um 12,1% á breytilegu verðlagi, en jafnframt fækkaði fataverslunum um áramótin sem setrið telur geta haft áhrif. Verð á fötum var hins vegar 2,9% lægra en fyrir ári síðan.

Raftæki lækkuðu töluvert í verði í útsölum í janúar og jókst salan á þeim einnig. Lækkaði verð á raftækjum eins og sjónvörpum, hljómflutningstækjum um 14,5% milli ára þó veltan héldist sú sama, en verðlækkun stærri heimilistækja nam 9% meðan veltan jókst um 23,8%.

Fimmtungsaukning veltu hjá byggingavöruverslunum

Jafnframt jókst velta byggingavöruverslana um rúmlega fimmtung, eða 20,2% milli ára.

Greiðslukortavelta heimila hér innanlands var 9% meiri í janúar en í sama mánuði fyrir ári, en kreditkortavelta Íslendinga erlendis jókst um 17,6% milli ára, og nam hún 7,1 milljarði króna. Á meðan jókst greiðslukortavelta ferðamanna hér á landi um 49% frá síðasta ári.