Verðbólga mælist aðeins 0,5% á Íslandi og er það minnsta verðbólga innan ríkja Evrópska efnahagssvæðisins samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs sem Hagstofan birti í morgun. "Mikið hefur dregið úr verðbólgu á Íslandi á síðustu misserum samkvæmt þessum mælikvarða og samanburður við önnur lönd vekur sérstaka athygli í ljósi þess hve háir skammtímavextir eru hér á landi," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Samræmd vísitala neysluverðs gefur þó ekki góða mynd af verðbólguþrýstingi um þessar mundir þar sem íbúðaverð er ekki meðtalið í vísitölunni. Verðbólga hér á landi hefur að undanförnu einkum verið drifin áfram af hækkun íbúðaverðs og eldsneytisverðs.

Verðbólgan er að meðaltali 2,2% í ríkjum EES en mesta verðbólgan reyndist 6,3% í Lettlandi og 4% í Lúxemborg. Minnsta verðbólgan mælist hins vegar eins og áður sagði hér á landi en næst kemur Svíþjóð með 0,7% og Finnland með 0,9%. Verðbólga er nú 3,2% í Bandaríkjunum en í Japan er 0,5% verðhjöðnun.