Frá og með 1. febrúar næstkomandi verður nöfnum Sæplasts á Dalvík og Tempru í Hafnarfirði breytt í Promens Dalvík og Promens Tempra. Sömuleiðis verður í kjölfarið breytt nöfnum á 20 verksmiðjum innan Promens samstæðunnar erlendis en þær hafa verið reknar undir nöfnum Sæplasts, Bonar Plastics og EPI en fá nú nafn Promens að því er kemur fram í tilkynningu.

Þar kemur fram að Sæplast verður áfram mikilvægt vörumerki innan samstæðunnar og segja forsvarsmenn verksmiðjanna hér á landi að nafnabreytingin hafi lítil sem engin áhrif fyrir viðskiptavinina.


Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri Promens Dalvík, segir þessa breytingu eiga sér talsverðan aðdraganda og sé niðurstaða stefnumótunarvinnu undanfarinna missera en hún hafi óverulega breytingu í för með sér fyrir viðskiptavini. ?Það má segja að nafnabreytingin sé rökrétt framhald á uppbyggingu Promens. Móðurfélagið hefur vaxið mikið á undanförnum árum og í dag er rekstur dótturfélaganna á Íslandi einungis um 2% af heildarrekstri Promens. Með þessu skrefi erum við að undirstrika móðurfélagið og dótturfélögin öll sem eina liðsheild, bæði hérlendis og erlendis. Það eru klárlega sóknartækifæri fólgin í því fyrir verksmiðjuna á Dalvík að vera hluti af þeirri sterku heild sem Promens er og við hlökkum til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er framundan hjá fyrirtækinu,? segir Daði.


Til merkis um samræmingu í ýmsu starfi innan Promens er að nú hefur færsla á öllu bókhaldi íslensku starfseminnar, bæði móðurfélagsins og dótturfélaganna tveggja verið flutt til Dalvíkur. Að sögn Daða er stuðst við bestu nútímatækni í fjarvinnslu við þetta verkefni.

Lítil áhrif fyrir viðskiptavinina


Páll Sigvaldason, framkvæmdastjóri Promens Tempru í Hafnarfirði, undirstrikar einnig að viðskiptavinir verði lítið varir við þessar breytingar, hvað fyrirtækið varðar. ?Tempruvörurnar sem þeir hafa keypt frá okkur verða með öllu óbreyttar en viðskiptavinir okkar verða aðeins varir við breytingar á bréfsefni, reikningsformi, símsvörun og öðru slíku. Aðalatriðið er að þeir fá þá vöru áfram sem þeir hafa sótt til okkar. Fyrir okkur í Promens Tempru er tilhlökkunarefni að starfa undir merkjum eins öflugasta félags á Íslandi á sviði iðnaðar og raunar er Promens með stærri framleiðendum í plastiðnaði í heimi. Fyrirtækið er bæði sterkt og með trausta bakhjarla þannig að ég tel sóknartækifæri í því að starfa undir merkjum þess,? segir Páll Sigvaldason.

Hilmar Guðmundsson, markaðs- og sölustjóri Promens Dalvík, segir að úti á mörkuðunum verði lítið vart við þessa breytingu. ?Framleiðsluvörur okkar verða áfram seldar undir Sæplast vörumerkinu og við munum hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að standa undir þeim væntingum sem viðskiptavinir okkar gera til Sæplast varanna. Sæplast vörumerkið á að baki sér yfir 20 ára sögu og er mjög þekkt hérlendis og erlendis og verður það áfram þó breyting verði á nafni framleiðanda vörunnar. Þannig munum við halda okkar striki á vörusýningum og kynningum erlendis með merki Sæplasts mjög sýnilegt,? segir Hilmar og bendir á að mörg önnur vörumerki hafi um árabil verið innan Promens fyrirtækjanna og svo verði áfram.


?Við höfum til að mynda tvö vörumerki fyrir ker í verksmiðjunni í Noregi og núverandi verksmiðjur Bonar Plastics munu áfram halda sínum vörulínum þó nafn þeirra breytist í Promens. Það mikilvægasta fyrir viðskiptavinina er því að þeir geta áfram treyst á öfluga þjónustu, varan er óbreytt og vörumerkin sömuleiðis. Að mínu mati framkallar þessi breyting frekar ákveðin sóknarfæri fyrir okkur og sveigjanleika í markaðsetningu,? segir Hilmar.

Promens með 5400 starfsmenn í 60 verksmiðjum


Promens hf. er eitt af stærstu fyrirtækjum heims á sviði plastframleiðslu. Fyrirtækið veltir rúmlega 700 milljónum evra á ári og hefur yfir að ráða 60 verksmiðjum auk söluskrifstofa í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 5400 talsins.


Promens framleiðir plastvörur fyrir margar tegundir iðnaðar, s.s. matvæla-, efna-,lyfja-, lækninga- og bílaiðnað með sprautusteypu, blástursmótun, vakúmmótun og hverfisteypu. Meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru mörg af þekktustu vörumerkjum heims innan þessara geira.


Stærstu eigendur Promens eru Atorka Group og Landsbankinn.