Kjaraviðræður samtaka sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) slitnuðu á fundi hjá ríkissáttasemjara síðastliðinn mánudag. Viðræðurnar strönduðu annars vegar á minni þátttöku sjómanna í olíukostnaði og hins vegar á kröfu sjómanna um bætur fyrir sjómannaafsláttinn, sem var afnuminn fyrir tveimur árum. Verkfall sjómanna hófst 14. desember og hefur því staðið yfir í um 43 daga eða um sex vikur. Staðan er á viðkvæmu stigi en útlit er fyrir að verkfallið muni halda áfram.

Hægt að reikna tapið til andskotans

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir sjómenn gera kröfum um aukna hlutdeild í þeirri velgengni sem íslenskur sjávarútvegur hefur upplifað undanfarin ár.

„Það hefur verið gott gengi í sjávarútveginum undanfarin ár. Auðvitað hafa allir notið góðs af því, bæði sjómenn og útgerðarmenn. En við teljum okkur eiga meiri hlut í þessu góðæri heldur en efni hafa verið til frá útgerðinni,“ segir Valmundur. Hvað áætlað tekjutap útgerðarinnar varðar segir Valmundur: „Það er hægt að reikna sig til andskotans í þessu öllu saman, en okkur sýnist að miðað við okkar ítrustu kröfur kosta þær smotterí miðað við hagnað sjávarútvegsfyrirtækja undanfarin ár.“

Verkföll úrelt fyrirbæri

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísir og einn nefndarmanna í samningum við sjómenn, segir sjómannaverkfallið hafa haft talsverð áhrif á rekstur fyrirtækisins.

„Tekjutapið er mikið sem og skaðinn á markaði,“ segir Pétur. „Við munum ekki sjá fyrir tapið í heild sinni fyrr en eftir um tvö til þrjú ár. Verkfallið hefur einnig áhrif á viðskiptasambönd. Þau byggja á því að við séum með stöðuga afhendingu. Fiskhúsin okkar eru ekki að standa við afhendingu á þeim vörum sem við ættum að vera að framleiða. Þegar fiskurinn skilar sér ekki koma aðrir inn.

Svo höfum við líkt og aðrir áhyggjur af því að tapa vinnuafli á meðan við höfum ekki vinnu fyrir fólkið. Þetta versnar mjög hratt með hverjum deginum sem líður og þetta er miklu dýrara en menn gera sér grein fyrir.“

Pétur segir sjómenn gera kröfu um hærra launahlutfall, en að svigrúmið til að hækka það sé minnst þar sem þörfin fyrir slíka hækkun er mest.

„Afkoma sjávarútvegs hefur verið með því besta sem við þekkjum síðastliðin sex til átta ár. En nú er orðin mikil breyting þar á. Krafa sjómanna um breytingu á olíuviðmiði er ekkert annað en hækkun á launahlutfalli. Það myndi koma mjög illa við okkur, en við erum með þann hluta bátaflotans sem er með hátt launahlutfall.

Hlutföllin eru mjög misjöfn á flórunni, eða á bilinu 30-50%. Á línuflotanum okkar erum við með launahlutfallið 42% af brúttó tekjum. Ef þú borgar 55% hráefnishlutfall og 42% launahlutfall fær sjómaðurinn einhver 23% af allri brúttó innkomu vinnslu og veiða, sem er mjög hátt. Svigrúmið til að hækka launahlutfallið er því einfaldlega takmarkað.

Það er löngu kominn tími til að taka 30 ára kostnaðarhlutdeild til skoðunar, þannig að hún verði skoðuð í samhengi við hvern bátaflokk fyrir sig, þar sem kostnaðarflóran er mjög misjöfn eftir flokkum.“ Telur Pétur að lykillinn að lausninni sé sá að menn viðurkenni þessar staðreyndir og vinni eftir því.

Pétur segir samstarfið við sjómenn þó hafa verið gott. „Það er sterkur vilji á báðum hliðum til að finna lausn í málinu og við höfum leyst ýmis mál. Við ströndum á tveimur atriðum. Hið fyrra er að sjómenn fá ekki viðurkennda skattfrjálsa dagpeninga þó svo að nýr fjármálaráðherra hafi sagt að allir eigi að sitja við sama borð, en engin stétt hefur ríkari ástæðu til að fá skattfrjálsa dagpeninga. Hið síðara er svo kostnaðarhlutdeildin.

Þetta stefnir í að verða tveggja mánaða störukeppni, þar sem þriðji aðili skaðast ekki síst og það er það sem gerir verkföll að úreldum fyrirbærum. Á upplýsingaöld ættu menn að geta útkljáð sín mál með reiknilíkönum og skipt verðmætum sanngjarnt á milli sín.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .