*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 26. nóvember 2020 08:49

Veruleg hagnaðaraukning

Hagnaður tíu stærstu útgerðarfyrirtækja landsins jókst um helming milli ára og nam 29 milljörðum króna 2019.

Alexander Giess
Brim hf. er það útgerðarfélag sem fær úthlutað flestum þorskígildistonnum fyrir veiðiárið 2020-2021. Þar á eftir kemur Samherji Ísland ehf.
Aðsend mynd

Heildarvelta tíu stærstu útgerða landsins nam 178 milljörðum króna árið 2019 og jókst um tæplega 22 milljarða milli ára eða fjórtán prósent. Samanlagður hagnaður félaganna jókst um ríflega 52% milli ára, úr 19 milljörðum króna í 29 milljarða. Afkoma allra tíu útgerðarfélaganna batnaði milli ára og skiluðu félögin öll hagnaði. Jákvæður viðsnúningur var á rekstri tveggja útgerða; Vísis hf. og Skinneyjar-Þinganess hf.

Litið er til þeirra tíu útgerða sem fengu úthlutað flestum þorskígildistonnum fyrir veiðiárið 2020-2021. Sérstakar úthlutanir, líkt og skel- og rækjubætur, eru ekki innifaldar í tölunum.

Samanlögð arðgreiðsla útgerðanna tíu dróst saman um 40% milli ára og nam tæpum 3,7 milljörðum króna á síðasta ári en um 6,2 milljörðum 2018. Þrjú útgerðarfélög greiddu ekki út arð árið 2019 samanborið við eitt félag árið áður. Á síðasta ári voru ársverk félaganna 3.770 og fækkaði um 4,4% milli ára.

Útgerðarfélögin Samherji og Brim, sem áður var HB Grandi, eru með yfirburðum stærst. Velta Samherja nam 50,5 milljörðum króna 2019 sem er tæplega 30% af heildarveltu útgerðanna tíu. Velta Brims og Samherja nam tæplega 88 milljörðum samanlagt árið 2019 sem er helmingur af heildarveltunni. Hagnaður félaganna tveggja var 47% af heildarhagnaðinum, eða tæplega 14 milljarðar króna, og greiddur arður var 68% af heildararðgreiðslum eða um 2,5 milljarðar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Samherji Brim sjávarútvegur Útgerðir