Könnun Samkeppnisstofnunar á nærri 10 þúsund lénum á rótarléninu .is leiddi í ljós að verulega skortir á að þeir sem láta í té rafræna þjónustu uppfylli lögákveðna upplýsingaskyldu sína. Á sama hátt hefur könnunin leitt í ljós að upplýsingagjöf þeirra sem selja vöru og þjónustu til neytenda á Netinu er verulega ábótavant.

Samkeppnisstofnun var með lögum nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu falið eftirlit með þeim ákvæðum laganna sem lúta að upplýsingaskyldu þeirra sem láta í té rafræna þjónustu. Eitt af markmiðum lagasetningarinnar er að efla traust til rafrænnar þjónustu meðal annars með því að skylda þann sem veitir þjónustu á Internetinu til að gefa tilteknar staðlaðar lágmarksupplýsingar um sig. Neytendavernd í rafrænum viðskiptum skal þannig ekki vera lakari en í hefðbundnum viðskiptum. Samkeppnisstofnun hefur einnig eftirlit með þeim sem selja vöru og þjónustu til neytenda á Netinu samkvæmt lögum nr. 46/2000 um húsgöngu- og fjarsölusamninga.

Samkeppnisstofnun hefur nú í samræmi við eftirlitsskyldu sína kannað íslenskar vefsíður og eins og fyrr segir leiddi sú könnun í ljós að verulega skortir á að upplýsingaskyldan sé uppfyllt. Samkeppnisstofnun sendir því nú alls um 2.500 fyrirtækjum, félögum og einstaklingum orðsendingu þar sem vakin er athygli á að upplýsingar á vefsvæðum þeirra eru ekki í samræmi við lög og þeim jafnframt bent á að koma upplýsingagjöf sinni í rétt horf.

Þá hefur Samkeppnisstofnun tekið saman og birt á vefsvæði stofnunarinnar, www.samkeppni.is, annars vegar samantekt sem ætluð er þjónustuveitendum og hins vegar yfirlit yfir nokkur atriði sem neytendur ættu að hafa í huga við kaup á vöru og þjónustu á Internetinu.