Tólf mánaða hækkun launavístölunnar nemur nú um 9,2% en svo hraður hefur takturinn ekki verið síðan um mitt árið 2007. Í Morgunkorni Íslandsbanka segir að launahækkanir á nýliðnu ári hafi verið miklar, og þá sér í lagi m.v. ástandið á vinnumarkaði þar sem enn sé töluvert atvinnuleysi, þrátt fyrir að það hafi minnkað frá því að það náði hámarki á árinu 2010.

"Eins og Seðlabankamenn bentu á riti sínu Peningamálum, sem kom út í byrjun nóvember síðastliðins, virðist jafnvægis-atvinnuleysi hafa aukist töluvert. Það felur í sér að öðru óbreyttu, að þrýstingur á laun og verðbólgu myndast við meira atvinnuleysi en var fyrir fjármálakreppuna. Í þessu sambandi má nefna að á nýliðnu ári mældist skráð atvinnuleysi að meðaltali um 7,4% samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun, en á árið 2007 mældist það 1,0% að meðaltali. Þrátt fyrir mikið atvinnuleysi á árinu hækkuðu laun um 9,2% eins og á undan er getið, sem er jafnvel meiri hækkun en var á launavístölunni árið 2007, en þá nam hækkun hennar 8,6%," segir Morgunkorni Íslandsbanka.