Ólöf Nordal, alþingismaður sagði á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins í gær að það væri óraunhæft að fjalla um framtíð Íslands án þess að viðurkenna að grundvallarumræða um stjórnskipun landsins hefur ekki farið fram.

„Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að við ættum að læra af reynslunni þegar EES-samningurinn var innleiddur hér og ég held því fram að þorri landsmanna hafi ekki gert sér grein fyrir því valdaframsali sem í honum fólst. Við verðum að koma okkur saman um stjórnarskrárbreytingar fyrst og við vitum að það tekur nokkur ár að koma slíkum breytingum fram,“ sagði Ólöf.

Hún sagði að þessari umræðu ætti hins vegar ekki að blanda saman við umræður um lausn þerra aðkallandi vandamála sem nú eru komin upp í efnahagslífinu. „ESB aðild tryggir ekki aðild að evrusvæðinu nema Ísland hafi þegar uppfyllt ströng skilyrði um lága verðbólgu, stöðugt gengi og sterk ríkisfjármál,“ sagði hún.

Hún sagði að núverandi fjármálavandi stafaði fyrst og fremst af ytri vanda. „Við hann verðum við að berjast með öllum tiltækum vopnum,“ sagði Ólöf.

„Að því loknu,“ sagði hún, „verður að draga af honum lærdóm og ákveða hvaða leiðir eru farsælastar til að styrkja kerfið til framtíðar.“

Hún sagði brýnasta verkefni dagsins vera að ná efnahagsjafnvægi, „hvort sem við sjáum að því loknu þörf á að breyta stöðu okkar í efnahagskerfi heimsins eða ekki. Það verður ekki útkljáð fyrr en að þessu verki loknu. Við höfum ekki tíma til slíkra hluta nú,“ sagði Ólöf í ræðu sinni.