Slitastjórn Kaupþings hefur nú ákveðið að fell niður málshöfðun á hendur Vestmannaeyjabæjar til riftunar greiðslu Kaupþings hf. til Vestmannaeyjabæjar frá 8. september 2008, að fjárhæð kr. 1.013.229.250. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar í dag.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Málið snýst um greiðslu Kaupþings til bæjarins þann 8. september. Bankinn greiddi bænum þá til baka peningamarkaðsinnlán. Í tilkynningunni segir að þar hafi verið um að ræða fjármuni í eigu bæjarins se voru í peningamarkaðsinnláni hjá Kaupþingi. Í stefnu Kaupþings sagði hins vegar að umrædd fjárhæð hafi verið greidd fyrr en eðillegt var í skilningi laga um gjaldþrotaskipti.

Í tilkynningunni segir að Vestmannaeyjabær hafi ekki upplýsingar um hvað það er sem nú hefur orðið til þess að Kaupþing fellur frá kröfunni. "Eftir sem áður er ljóst að sveitarfélagið hefur orðið fyrir beinum kostnaði af málinu. Það sem er alvarlegra er að vegna stefnunnar hefur Vestmannaeyjabær orðið að fresta öðrum fjármálagerningum svo sem samningum við Fasteign hf. um endurkaup á eignum og fleira," segir í tilkynningunni. "Vestmannaeyjabær mun því kanna grundvöll fyrir skaðabótum vegna stefnu Kaupþings sem augljóslega byggði aldrei á málefnalegum forsendum."