Búið er að slíta stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna fimm. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá þingflokki Pírata. Fimm flokkar frá miðju til vinstri — Vinstri græn, Píratar, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin — höfðu staðið í viðræðum en höfðu ekki erindi sem sem erfiði.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur tilkynnt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, um slit viðræðnanna.

Hér má sjá tilkynningu frá þingflokki Pírata:

Píratar hafa af fullum heilindum og samstarfsvilja tekið þátt í stjórnarmyndunarviðræðum. Það eru mikil vonbriði að ekki hafi orðið af þessu sögulega tækifæri til að mynda frjálslynda umbótastjórn.

Stefnumálum Pirata var fyrir kosningar skipt upp í áherslumál og framtíðarsýn, ásamt því að málefni sem kosið er um og tilheyrandi greinargerðir eru aðgengilegar almenningi. Það er ánægjulegt að okkur hafi tekist að vinna að málamiðlunum án þess að þurfa að gefa afslátt af áherslumálum Pírata.

Tilraunir til að þyrla upp ryki og skapa óvissu um stefnumál sem ekki voru sett á oddinn fyrir kosningar hafa verið áhugaverðar, en það var aldrei ætlun Pírata að láta stefnumál byggð á ákvæðum nýrrar stjórnarskrár koma í veg fyrir samstarf við aðra flokka í stjórnarmyndun.

Ferli fyrir innleiðingu nýrrar stjórnarskrár var vel tekið. Réttlát dreifing á arði af auðlindum var vel hægt að ná samstöðu um. Enginn hefur sett sig á móti endurreisn heilbrigðisþjónustu, eflingu aðkomu almennings að ákvörðunartöku, að tækla spillingu og því að endurvekja traust á Alþingi. Ekkert af þessum áherslumálum Pírata stóð í vegi fyrir stjórnarmyndun. Þetta er sérlega ánægjulegt í ljósi þess að niðurstöður kosninga hafa verið túlkaðar sem ákall um breiða samstöðu og samstarfsvilja þvert á hið pólitíska landslag.

Verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur í þessari vinnu hefur verið til fyrirmyndar og vilja Píratar koma á framfæri þakklæti fyrir gott samtarf.

Vinnan við stjórnarmyndun heldur áfram og traust okkar er mikið á þekkingu og innsæi forseta Íslands til að taka næstu skref.