Frá því að formaður Sjálfstæðisflokksins tók við umboði til stjórnarmyndunar frá forseta Íslands á þriðjudag hefur hann átt fundi með forsvarsmönnum allra flokka á Alþingi auk þingflokks síns. Formlegar viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar eru þó ekki hafnar. Kemur þetta fram í Morgunblaðinu í dag.

Morgunblaðið hafði í gær samband við forsvarsmenn þeirra stjórnmálaflokka sem líklegast má telja að geti gengið inn í ríkisstjórnarsamstarf og höfðu þeir sömu sögu að segja; menn eru að tala saman á óformlegum nótum og engin stór tíðindi liggja fyrir enn sem komið er.

„Menn eru alveg að tala saman. Við heyrum í ákveðnum aðilum og þeir heyra í okkur en menn halda spilunum þétt að sér,“ sagði einn þeirra.

Annar efaðist um að formanni Sjálfstæðisflokksins myndi takast að mynda næstu ríkisstjórn. „Ég held það verði stjórnarkreppa - þetta er ekki að fara að takast,“ sagði hann.