Afgangur á viðskiptajöfnuði nam 11,1 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi 2019 og hrein staða við útlönd var jákvæð um 628 milljarða króna. Halli á vöruskiptajöfnuði var 42,7 milljarða króna en afgangur á þjónustujöfnuði nam 52,1 milljörðum. Frumþáttatekjur skiluðu 8,6 milljörðum króna í afgangi en halli á rekstrarframlögum nem 6,9 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi 2019 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Samkvæmt bráðabirgðayfirlitinu námu erlendar eignir þjóðarbúsins 3.878 milljörðum króna í lok fjórðungsins en skuldir 3.249 milljörðum. Hrein staða við útlönd var því jákvæð um 628 milljarða króna eða 21,8% af vergri landsframleiðslu. Þetta er 44 milljarða króna betri staðan en á fyrsta ársfjórðungi og nemur aukningin 1,5% af vergri landsframleiðslu.

Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 9 milljarða króna á fjórðungnum. Erlendar eignir jukust um 56 milljarða króna vegna fjármagnsviðskipta en skuldir hækkuðu um 47 ma.kr. Gengis- og verðbreytingar höfðu jákvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins um 61 milljarða sem skýrist aðallega af 2,8% verðhækkunum á erlendum verðbréfamörkuðum á fjórðungnum og 2,2% lækkun á gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum.